143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru þrjár spurningar sem ég tel brýnar og vil leggja fyrir ráðherra í þessari umræðu. Sú fyrsta varðar byggingu nýs sjúkrahúss. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fjármunum, 100 millj. kr., til hönnunar á sjúkrahóteli og síðan framkvæmdum þar á næstu árum. Það er viðleitni til að halda verkefninu lifandi en hvergi er að sjá að í gangi séu áætlanir um hvernig tryggja á nútímahúsnæði fyrir rekstur Landspítalans í framtíðinni. Ráðherra sagði áðan að ekki hefði verið áætlað að fara í byggingu meðferðarkjarna fyrr en 2016. Það er rétt, fram að þeim tíma átti að vinna að hönnun á þeim kjarna.

Því spyr ég ráðherra: Er í gangi vinna á hans vegum varðandi áætlun um hvernig tryggja eigi að við sjáum í land varðandi nýjan Landspítala og framtíð hans fyrir lok þessa kjörtímabils? Liggur fyrir hvernig það á að vera? Þetta eru mikilvægar spurningar fyrir Landspítalann og alla þá starfsemi sem þar er.

Önnur spurning varðar fjárframlög til bæði LSH og FSA. Jafnlaunaátakið verður fjármagnað með niðurskurði á fjármunum til tækjakaupa og legugjöldum sjúklinga. Það hefur aldrei tíðkast að launabreytingar væru látnar skerða aðra starfsemi.

Ég spyr, af því að tækjakaupaáætlunin er innan við ársgömul, hún var unnin af forstjórum þessara spítala vegna brýnnar nauðsynjar: Hvað hefur breyst í millitíðinni og hvað áætlar ráðherra að muni þá vera hægt að leggja af fjármunum í tækjakaup? Verið er að taka út 650 millj. kr. Hvað megum við búast við mörgum milljónum í nýju tækjakaupaáætluninni?

Þriðja spurningin varðar fjárheimildir annars vegar sjúkratrygginga og hins vegar Landspítala. Í frumvarpinu kemur fram að verið er að bæta sjúkratryggingum upp magnaukningu á yfirstandandi ári. Ekki er krafist niðurskurðar þar. En magnaukningar sem til hafa komið á Landspítalanum eða aukning, aukin þörf fyrir fjármuni sem valdið hefur hallarekstri, ekki vegna óráðsíu heldur vegna mjög þröngrar stöðu sjúkrahússins, verður ekki bætt. Þess vegna er um raunniðurskurð að ræða þegar litið er til hallans.

Því spyr ég ráðherra: Af hverju eru sérgreinalæknarnir hjá sjúkratryggingum meðhöndlaðir með öðrum hætti en opinber sjúkrahús landsins?