143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirlýsingu um að hann heiti heilbrigðismálum allan þann stuðning sem hann geti veitt til að styrkja kerfið og berja í þá bresti sem þar er að finna. Það er gott að vita til þess stuðnings.

Ég er í grundvallaratriðum sammála greiningu hv. þingmanns á þeim viðfangsefnum sem taka þarf á í þessum efnum. Þó skilur örlítið á milli áherslna okkar að því leytinu til að ég tel færi — og geri raunar ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi sömu sýn til þess, mér þótti það samt ekki nægilegt skýrt — á að endurskipuleggja heilsugæsluna hér á höfuðborgarsvæðinu í takti við niðurstöður Boston Consulting Group og tillagna ráðgjafarhópsins án þess að skerða þjónustu. Breytingar á rekstrarformi — fyrir liggur úttekt frá árinu 2008 sem sýnir að besta niðurstaða rekstrar í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu er á einni stöð og ef árangur þeirrar stöðvar í rekstri yrði heimfærður yfir á allar hinar 16 sparaði það um 330 milljónir á árinu 2008, fjármuni sem við hefðum getað nýtt til að styrkja heilsugæsluna. Ég spyr: Eigum við ekki að vinna að því? Ég vil gera það.

Ég treysti á liðsinni hv. þingmanns við að gera það mögulegt, vegna þess að full þörf er fyrir slíkan ábata til að styrkja stöðuna annars staðar í heilbrigðisþjónustunni. Þetta er spurningin um leiðirnar að markmiðinu. Þetta er vandmeðfarið. Það tekur tíma, en ég er þegar byrjaður að undirbúa þetta.