143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar Nám er vinnandi vegur geri ég mér alveg grein fyrir því að það væri mjög æskilegt að hafa meiri fjármuni til þróunarstarfs og ýmissa annarra slíkra verkefna. En enn og aftur, það er mikilvægast að verja grundvallarstarfsemina. Ég benti á það hér áðan að þegar menn skoða undanfarin ár blasir við sú mynd að eitt fjárlagaárið, þegar horft er til þeirra fjármuna sem voru teknir vegna niðurskurðar í framhaldsskólum og síðan þeirra fjármuna sem fara í ný verkefni, þá standast þessar tölur sæmilega vel á. Það er það sem ég geri athugasemd við. Ég tel að það sé betra að verja grunninn, reksturinn sjálfan, og við verðum að fara aðeins hægar í gegnum ný verkefni, þróunarverkefni og annað slíkt. Það er ekki hægt að halda áfram með meiri niðurskurð. (Gripið fram í.)

Síðan er rétt að horfa á það að allt skólastarfið í landinu hangir saman, hvort sem við erum að tala um háskólann, framhaldsskólann, grunnskólann eða leikskólastigið. Það þarf auðvitað að ræða þetta í samfellu. En breytingar á einstökum skólastigum eins og í framhaldsskólunum hljóta fyrst og síðast að horfa til þess hvernig við nýtum sem best tíma þeirra ungmenna sem þar stunda nám. Það er grundvallaratriðið. Hvernig undirbúum við þau best, t.d. fyrir áframhaldandi nám hvort sem er í háskólum eða einhvers staðar annars staðar? Það er auðvitað lykilhugtakið að horfa á nemendurna sjálfa, ekki kerfið.

Ég tel hvað varðar háskólana að við höfum tækifæri til að efla þá faglega. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þingmaður segir hér, auðvitað er grundvallaratriðið síðan hinn faglegi þáttur málsins, þ.e. öflugir háskólar sem veita framúrskarandi góða menntun. Það sem ég hef verið að horfa á og hef verið að ræða hér að undanförnu er einmitt hvort við getum ekki náð betri árangri. Mér er það til efs að skynsamlegt sé að vera með sjö sjálfstæða háskóla. Ég tel að þau skref sem voru stigin varðandi háskólanetið, sem voru fyrstu skref í áttina að því að auka samstarf þeirra og gera sameiningu slíkra skóla mögulega, (Forseti hringir.) hafi verið rétt skref. Það þarf að halda áfram með þá vinnu sem hafin var af hálfu (Forseti hringir.) fyrrverandi hæstv. ráðherra.