143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um uppsafnaðan rekstrarvanda einstakra embætta, já, þá er búið að kortleggja þá stöðu í innanríkisráðuneytinu. Það var gert einnig í þessari skýrslu sem er svo títt nefnd hér í hinni þverpólitísku góðu vinnu um lögreglumálin á síðasta kjörtímabili. Það er rekstrarteymi sem vinnur í innanríkisráðuneytinu og hefur unnið með þessum aðilum sem eru í forsvari fyrir umrædd embætti. Sá vandi er talsverður og ég tel að hann verði ekki leystur á einu ári heldur þurfi að taka það í áföngum og vinna að því með lögreglustjórum á hverjum stað að við tryggjum að við komumst einhvern veginn á ákveðinn endapunkt í því og getum byrjað að byggja upp. Sá vandi er til staðar en við teljum að með þessari viðbót sem nú fæst náum við að vinna á þeim vanda með einhverjum hætti en einnig, eins og ég sagði áðan, að fjölga lögreglumönnum á landsbyggðinni sem við teljum brýnasta verkefnið.

Varðandi fækkun sýslumanna og lögreglustjóra, já, það frumvarp er í vinnslu og miðað er við að það verði lagt fram í haust. Ég get sagt það án þess að fara í einhver smáatriði hvað varðar þau frumvörp, sem eru tvö, að það stendur til að vinna þau út frá landshlutum þannig að það verði gert í sem bestri samvinnu og sátt við þá vinnu sem þegar var hafin í innanríkisráðuneytinu á síðasta kjörtímabili. Það er ekki ólíkt því uppleggi.

Varðandi framlag til innanlandsflugs er einnig rétt að gert er ráð fyrir lækkun á því framlagi. Ég get deilt þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur af því, ég hef áhyggjur af því og það þarf að fara vel yfir það. Samhliða því er vinna hafin í innanríkisráðuneytinu sem lýtur að fjárhagsgrunni Isavia sem lýtur að skoðun á því hvort það er nákvæmlega rétt skipt í því sambandi. Við horfum til nágrannalanda okkar, sérstaklega Noregs. Varðandi fjarskiptasjóðinn er þessi lækkun sem hv. þingmaður nefnir ekki talin hafa áhrif á þá uppbyggingu og þau verkefni sem eru í gangi víða um land og tengjast því.