143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þakka ber sérstaklega auknar fjárheimildir til löggæslumála sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu. Það hefur satt að segja valdið töluverðum áhyggjum undanfarin ár hversu mjög hefur verið þrengt að starfsemi lögreglunnar hvort sem er fjárhagslega eða faglega. Það á við um fækkun í lögregluliðum, það á við um tregðu til að veita lögreglu forvirkar rannsóknarheimildir og mjög vantar á að útbúnaður lögreglunnar sé í samræmi við breyttan og harðari heim afbrota.

Einnig má nefna í þessu samhengi vaxandi ásókn erlendra glæpaflokka til Íslands og þess vegna ber að fagna því sérstaklega að vandi lögreglunnar á Suðurnesjum er loksins viðurkenndur en það embætti bjó lengi við fjárþurrð út af því að sá ytri vöxtur sem var við það embætti árum saman var ekki viðurkenndur. Ég gleðst mjög yfir því að þar er tekið á. En grunnurinn í starfi lögreglunnar hlýtur þó alltaf að verða og mun alltaf verða almannaþjónusta; að sjá til þess að borgarar þessa lands geti farið ferða sinna öruggir, verið óhræddir um heimili sín og eignir og vitað af börnum sínum öruggum.

Mig langar einnig að gera fangelsismál aðeins að umtalsefni. Það er ljóst að nýtt fangelsi verður ekki tekið í notkun næstu tvö til þrjú ár eða þar um bil en byggingarkostnaðurinn er allmikill eða um 40 milljónir á hvern klefa og byggingin leysir ekki uppsafnaðan vanda í afplánunarbiðröðinni sem við eigum við að etja. Mig fýsir því að spyrja hæstv. ráðherra hvort uppi séu hugmyndir eða ætlanir um að beita til dæmis ökklaböndum í refsiskyni, hvort til greina komi að auka afplánun með samfélagsþjónustu þar sem það á við og eftir atvikum hvort íhugað hafi verið að innrétta bráðabirgðahúsnæði til að leysa brýnasta vandann? Þá hugsa ég sérstaklega til húsnæðis sem er til á gamla „varnarsvæðinu“ á Keflavíkurflugvelli. Þar eru að vísu sex fangaklefar til þegar en svæðið er vel girt og þar er gnótt af ónýttu húsnæði sem ríkið er með rekstur á og gæti komið að gagni.

Mig langar líka að spyrja, í framhaldi af því sem ég sagði í upphafi máls míns, hvort hæstv. ráðherra hefur í hyggju að auka forvirkar rannsóknarheimildir til lögreglu.