143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég ætla að ítreka það að ég tel mjög brýnt að athuga þessar tvær fyrri ráðstafanir sem ég ræddi, þ.e. ökklabönd og samfélagsþjónustu, til að vinna á þessum langa lista.

Mig langar líka aðeins að gera málefni hælisleitenda að umræðuefni. Ég sé að fjárframlög stórhækka. Það bíða mjög margir hælisleitendur hér á Íslandi eftir úrlausn sinna mála, bæði er það ómannúðlegt og einnig dýrt fyrir ríkissjóð. Hæstv. ráðherra gat um að í undirbúningi væri vinna til að leysa þennan vanda hraðar en gert hefur verið. Þar sem ég veit að Norðmenn hafa glímt við holskeflu af hælisleitendum undanfarin ár og hafa verið með mjög ákveðnar verklagsreglur í þeim efnum langar mig til að vita hvort horft hafi verið þangað og einnig hvort hæstv. ráðherra hyggist beita þeim paragröffum í Dyflinnar-samningnum sem fyrir hendi eru á ákveðnari hátt en gert hefur verið undanfarin ár til að vísa hælisleitendum aftur til fyrsta lands sem kallað er.