143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:39]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við náum að taka skerðingarnar til baka og að við náum markmiðum laganna um fæðingarorlofið. Síðan getum við horft til nýrra réttinda foreldra í fæðingarorlofi. Það mun taka tíma og það er heilmikill kostnaður sem felst í því, eins og bara það að hækka þakið þó ekki sé nema um 20 þús. kr. á mánuði.

Hvað varðar hina spurninguna hér á undan um kynjagleraugun á skattkerfisbreytingunum þá er það náttúrlega fjármálaráðherra sem flytur tillögur um tekjuhlið frumvarpsins og þær endurspegla að sjálfsögðu hans áherslur, sem og áherslur ríkisstjórnarinnar. Ég hef talið mjög mikilvægt að þegar farið er í breytingar á jafn stórum kerfum og tekjuskattskerfinu, virðisaukaskattskerfinu, húsnæðismálum og fleiri málum verði unnið í mjög nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins, sé það unnið í mjög nánu samráði við hina ólíku hagsmunaaðila og ég vonast til að það muni gerast. Það hefur svo sem komið fram frá t.d. verkalýðsfélögunum að þau vilja ekki að við fækkum þrepunum. Það hefur komið fram ágreiningur um þrepin, að menn fari of skarpt á milli þeirra og það þyrfti hugsanlega jafnvel fleiri þrep, en það er akkúrat öfugt við það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir. Það þarf að vanda sig því þetta snertir allar fjölskyldur.

Varðandi Greiningarstöðina þá er þegar hafin vinna varðandi sameiningar á þremur þjónustustofnunum fyrir fatlað fólk. Ég hef lagt áherslu á að ég tel ekki að við séum að fara í þessa samninga á grundvelli þess að við ætlum að hagræða í rekstrinum heldur að við getum vonandi nýtt aukið svigrúm til að bæta þjónustuna við þá sem leita til þessara þriggja þjónustustofnana og ekki hvað síst hringinn í kringum landið því þær sinna allar öllum landsmönnum en ekki bara fólki á höfuðborgarsvæðinu.