143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:45]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef veitt því eftirtekt að Hugvísindastofnun Háskóla Íslands hefur á undanförnum vikum auglýst eftir fegurstu orðum íslenskrar tungu. Ég treysti því að hv. þingmenn Helgi Hjörvar og Steingrímur J. Sigfússon leggi sitt af mörkum og stingi upp á því að auðlegðarskattur og skattur verði talin fegurstu orð íslenskrar tungu því að nóg mæra þeir skatta og auðlegðarskatta.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi að sá skattur sem leggja á á þrotabú bankanna sem er 0,45% eignarskattur sé hressilegur eignarskattur. Nú er auðlegðarskatturinn 2% og því spyr ég hv. þingmann: Er ekki auðlegðarskattur kominn út úr öllu hófi? Ég leyfi mér að spyrja þingmanninn í framhaldi af því: Hver eru mörk skattlagningar og eignarnáms? Hvenær er skattlagning orðin eignarnám? 2% auðlegðarskattur í fimm ár er um það bil 10% eignarskattur. Er það eignarnám eða skattur?

Ég áskil mér rétt til að fjalla um auðlegðarskatt og aðra skatta síðar og ætla ekki að lengja mál mitt að sinni, en spurningin er þessi: Er auðlegðarskattur upp á 2% hressilegur eignarskattur?