143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Það hefði augljóslega mjög neikvæð áhrif á tekjuhlið frumvarpsins ef hagvaxtarforsendur breytast fram til þess að við afgreiðum málið, ef Hagstofan kæmi til dæmis í nóvember með spá um lægri hagvöxt á næsta ári en gert er ráð fyrir í frumvarpinu — en í frumvarpinu er sem sagt miðað við spá Hagstofunnar frá því í sumar. Minni kaupmáttur, áframhaldandi samdráttur á okkar mikilvægustu mörkuðum, eins og í Evrópusambandinu, hefur þessi neikvæðu áhrif.

Það eru þó nokkur atriði sem eru að spila í hina áttina og með okkur. Ég nefni bara almennu umræðuna um að Evrópa sé smám saman að taka við sér. Ég nefni nýlega ákvörðun bandaríska seðlabankans um að halda áfram aðgerðum til að örva hagkerfið, sem getur jafnvel leitt til lægri vaxta í heiminum. Hin örvandi aðgerð bandaríska seðlabankans hefur haft mikil áhrif á það að vextir í heiminum hafa verið mjög lágir og menn spáðu því að þegar seðlabankinn hætti þeim aðgerðum mundu vextir taka að hækka. Það gæti verið að lægri vextir á næsta ári kæmu sér vel, bæði almennt fyrir eftirspurn í heiminum en líka í lægri vaxtakostnaði sem íslenska ríkið gæti beint og óbeint notið góðs af.

Fiskstofnarnir eru öflugir. Við horfum til þess að þeir helstu hnútar sem hafa verið í makríldeilunni séu mögulega að leysast. Við vonumst til þess á næsta ári að geta enn aukið við heildaraflann og við höfum nýlega séð dæmi þess að fjárfesting er að vaxa. Ég nefni það sem er að gerast í Vatnsmýrinni, ég nefni það sem fram hefur komið með hótelbyggingu við Hörpu. Það tvennt eru stórar fjárhæðir en kannski ekki hlutfallslega að fara að rífa okkur upp úr neinni kreppu. En þetta leggst allt saman og tryggir vonandi að við sjáum ekki mikla lækkun á hagvaxtarhorfum.