143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um afar mikilvægt mál fyrir fjölmargar ungar fjölskyldur sem flutt var á septemberþingi. Mig langar að fara aðeins yfir sjónarmið sem ég reifaði þá og að auki hugmynd okkar vinstri grænna sem lögð var hér fram um gjaldfrjálsan leikskóla fyrir nokkrum árum.

Í upphafi í tengslum við fæðingarorlofsumræðuna er vert að rifja upp að það foreldri sem gjarnan er lengur heima eftir að fæðingarorlofi lýkur er konan sem hefur alla jafna lægri tekjur. Vegna launamismunar eru konur líklegri til að draga sig af vinnumarkaði þegar kostnaðurinn við að velja daggæsluna og atvinnuþátttökuna er meiri en sá ávinningur sem hægt væri að afla með því að notast við hana.

Með sömu rökum er líklegra að konur kjósi að vera í hlutastörfum en karlar í fullu starfi fyrstu ár barnsins. Þetta er eitt af því sem að mínu mati hefur myndað þann vítahring sem kjör og tækifæri kvenna á atvinnumarkaði eru. Fórnarkostnaður þess að spara peninga og vera heimavinnandi er sá að fara á mis við reynsluna úti á vinnumarkaðnum. Þetta hefur áhrif á tækifæri fólks síðar á lífsleiðinni og ekki síst konur.

Síðasta ríkisstjórn sýndi metnað í að auka flæði á milli skólanna og sá samhljómur sem finna má í námskrám þessara skólastiga eykur líkur á að samfellur náist í skólagöngu. Það hefur líka verið rætt og ritað að aukið samstarf skólastiganna sé hluti af farsælli skólabyrjun ungra barna.

Í eldri tillögu Vinstri grænna, sem ég nefndi hér áðan, kemur fram að leikskóli sé viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og fátt sem réttlæti að greitt sé fyrir skólahaldið á meðan önnur skólastig séu gjaldfrjáls eða töluvert mikið niðurgreidd. Félag leikskólakennara hefur ályktað að leikskólinn þurfi að vera hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar eins og önnur skólastig og sveitarfélögin eigi að vinna markvisst að því að börnum gefist kostur á sex tíma leikskólagöngu daglega án endurgjalds. Í þeim umsögnum sem hér liggja fyrir tekur Kennarasamband Íslands undir þessa þingsályktunartillögu um leikskóla að loknu fæðingarorlofi að því gefnu að fæðingarorlof verði lengt eins og lög nr. 143/2012 gera ráð fyrir. Síðasta ríkisstjórn lagði það frumvarp fram þar sem fæðingarorlof á að lengjast úr níu mánuðum í tólf. Þetta fór hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vel yfir hér áðan. Þetta er hins vegar mál sem við hér í minni hlutanum á Alþingi verðum að standa vörð um og pressa núverandi ríkisstjórn til að standa við því ekki sér þess stað í fjárlagafrumvarpinu og í raun hefur ekki komið fram nein framtíðarsýn hvað það varðar hjá hæstv. ríkisstjórn.

En ég ætla að halda aðeins áfram með gjaldfrjálsan leikskóla sem ég tel að yrði mikil kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn og mundi því leiða af sér fjölskylduvænna samfélag. Tölur frá Hagstofunni sýna að skipting milli fæðingar- og foreldraorlofs hafi verið afar mikið konum í óhag, þ.e. þær tóku að jafnaði 179 daga en karlar 81 og það er þörf að bregðast við. Fyrsti ávinningurinn með gjaldfrjálsan leikskóla væri jafnari tækifæri kynjanna til að samþætta fjölskyldulíf og atvinnuþátttöku og það samrýmist hugsun okkar vinstri grænna.

Það er nefnilega ekki svo að hægt sé að skýla sér á bak við það að leikskóli sé gjaldþrot og hann sé ekki skyldunám eins og ég sagði hér áðan. Ríkið rekur framhaldsskóla og háskóla. Hvorugt það skólastig er skyldunám. Það verður líka að hætta að líta eingöngu á leikskóla sem gæslu ungra barna eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fór hér með áðan því að innan veggja leikskólans fer fram mjög markvisst menntastarf.

Virðulegi forseti. Við vitum að mörg sveitarfélög eiga mjög erfitt eftir hrunið og er mikilvægt að sú vinna sem hér er lögð til nái fram að ganga og þessu máli verði fundinn framgangur. Velferðarkerfi sem kennir sig við jafnrétti ætti að hafa það sem meginmarkmið að bjóða leikskólapláss um leið og fæðingarorlofi lýkur og gera langtímaáætlun um gjaldfrjálsan leikskóla í samvinnu við sveitarfélög. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Mjög mikilvægt er að samhliða þeirri breytingu verði létt af ungbörnum og foreldrum þeirra óvissunni sem nú ríkir um dagvistunarmál þessa aldurshóps með því móti að sveitarfélögin sjái til þess að leikskólar þeirra standi ársgömlum börnum opnir. Einungis með því móti er unnt að tryggja að velferðar- og uppeldismarkmið samfélagsins nái fram að ganga.“

Undir þetta taka Barnaheill í umsögn sinni um þetta frumvarp þar sem þau segja að mjög mikilvægt sé að öllum börnum á Íslandi sé tryggð örugg umönnun og menntun eftir að fæðingarorlofi foreldra þeirra lýkur og taka fram sérstaklega að með því sé óvissu og óöryggi eytt. Í 1. gr. jafnréttislaga segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Markmiði þessu skal náð meðal annars með því að: a. gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins […] e. gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf …“

Þetta er ekki síður mikilvægt fyrir jafnrétti barna til að þau fái notið þess að vera í samskiptum við önnur börn inni á menntastofnun, inni á leikskóla, kjósi foreldrar þeirra það, og læra í gegnum leik. Það efast enginn um það sem fram kom í áliti dagforeldra við þessari þingsályktunartillögu, að dagforeldrar veiti börnum sem hjá þeim dvelja mikið atlæti og alúð sem er hverju barni mikilvægt og hafa dagforeldrar uppskorið mikla ánægju foreldra barnanna eins og fram kemur. Ég held að enginn efist um það og Reykjavíkurborg lét gera könnun þar sem kom fram að rúmlega helmingur þeirra sem var spurður hefði frekar kosið leikskólapláss en það voru þó um 40% sem vildu halda óbreyttu vistunarformi. En þetta á að vera hluti af því vali sem foreldrar ættu að geta haft þegar kemur að umönnun yngstu meðlima samfélagsins.

Félagsleg tengsl og vinir þykja nauðsynleg þegar börn flytjast á milli skólastiga og barn sem fylgir vinum sínum við upphaf skólagöngu er líklegra til að upplifa hana ánægjulega. Að gera leikskólann formlega að fyrsta skólastiginu þannig að fimm ára börn séu í raun skyldug til að sækja leikskóla eykur líkurnar á því að börn, til dæmis af erlendum uppruna, sitji ekki eftir þegar kemur að vinatengslum og málkunnáttu. Það ætti líka að geta spornað við einelti og að auki hjálpað erlendum fjölskyldum að samlagast umhverfi sínu.

Að lokum, virðulegi forseti. Hér hefur komið fram í umræðunni, og það liggur svo sem fyrir, að þetta getur orðið kostnaðarsamt en það er líka kostnaðarsamt að hafa mannauðinn heima þegar tækifæri eru á vinnumarkaði og hægt er að skapa tekjur fyrir sig og fjölskyldu sína og einnig fyrir samfélagið í heild. Þess vegna held ég að ríki og sveitarfélög og aðrir aðilar sem að þessu máli þurfa að koma verði að leggjast á eitt og tryggja öllum börnum aðgengi að leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi þar sem fagfólk heldur utan um mannauð framtíðarinnar.