143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það að við orðum tillöguna svo að ríkisstjórninni verði falið að mynda gjaldmiðilsstefnu endurspeglar þá forvitni sem ég lýsti áðan og að við viljum í rauninni og vonumst til að ríkisstjórnin geti rökstutt stefnu sína í gjaldmiðilsmálum. Þess vegna leggjum við ríka áherslu á það í þingsályktunartillögunni að rökstuðningurinn sé með ákveðin viðurkennd markmið í huga. Við hljótum að vilja frjáls viðskipti, við hljótum að vilja stöðugleika, við hljótum að vilja bæta lífskjör. Þingsályktunartillagan er náttúrlega hugsuð að meginstofni til sem krafa um rökstuðning í gjaldmiðilsmálum, sem krafa um lýsingu á því hvernig menn ætla að ná þessum markmiðum í efnahagsstjórn með krónuna sem gjaldmiðil.

Við teljum að í öllu falli yrði gott, þó að við aðhyllumst ákveðna skoðun í gjaldmiðilsmálum og teljum að það væri vænlegt til árangurs að gerast aðili að evrusvæðinu, að fram kæmi heildstæður rökstuðningur fyrir stefnu núverandi stjórnvalda í gjaldmiðilsmálum. En hins vegar finnst mér það ágætisábending, og það eru þá kannski aðeins önnur sjónarmið sem mundu liggja til grundvallar, að hugsanlega mætti breyta þingsályktunartillögunni í nefndinni og hafa nefndina frekar skipaða af öllum flokkum. Þá mundum við fá aðeins annars konar vinnu og líkurnar mundu aukast á fleiri en einni niðurstöðu úr slíkri nefnd. Mér finnst alls ekki útilokað að breyta tillögunni þannig.