143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu, hún hefur verið mjög áhugaverð. Mig langaði að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon — ég trúi því að hann viti mjög mikið um þetta, hefur bæði verið hér á þingi síðan sá var á barnsaldri sem hér stendur, og maður heyrir að menn hafa pælt mikið í þessu. Það sem ég sé sem aðalvandamálið við íslenska krónu er tilhneiging hennar til að leiða til verðbólgu. Ég átta mig á því að sögulega hafa verið nokkrar misjafnar ástæður fyrir verðbólgunni, en hún er einhvern veginn alls staðar og í öllu sem varðar íslenskt efnahagslíf til lengri tíma, ekki bara í verðtryggingunni, heldur virðist hún vera einhvers konar hluti af því að búa á Íslandi. Maður býr við verðbólgu, maður einhvern veginn venst því. Svo missir þjóðin verðskynið í þokkabót sem ég held að hjálpi ekki mjög mikið.

Góð vinkona mín spurði um daginn: Hvers vegna er alltaf svona mikil verðbólga hérna? Hvað er málið? Hvaðan kemur þetta? Eru þetta gömlu gengisfellingarnar? Er það bara þetta hrun? — Vissulega var það ekki bara þetta hrun. Ég velti þessu svolítið fyrir mér og gaf þessar klassísku útskýringar. Kenndi þjóðinni aðeins um að hafa ekkert verðskyn og vera mjög agalaus þegar kemur að því að velja og hafna, ekki bara hvort eigi að kaupa heldur hvar og hvers vegna. Við þorum ekki að segja nei þegar okkur blöskrar verðið o.s.frv.; fullt af svona alls konar þáttum. En það er sama hvað ég reyni að útskýra þetta, einhvern veginn finnst mér ég aldrei hafa komist að niðurstöðu, mér finnst ég aldrei hafa svarið.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverjar hugmyndir, einhvern fróðleik, um það annaðhvort hvaðan verðbólgan komi eða hvernig við getum stöðvað hana í því að verða til, því hún gengur ekki með klassískri aðferð. Hún bara mun ekki ganga, það verður hávaxtastefna og leiðindi.