143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

stuðningur við fjárlagafrumvarpið.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir til að koma þessu fjárlagafrumvarpi saman. Aðhaldsaðgerðir í frumvarpinu eru upp á 12 milljarða. Þær bitna þó ekki á Landspítalanum.

Það hefur verið töluvert rætt um þörfina fyrir tækjakaup á Landspítalanum. Hún er greinilega mikil. Á síðasta ári var þó einungis ákveðið til eins árs að bæta 600 milljónum ofan á aðrar heimildir til tækjakaupa. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að það er unnið að gerð langtímaáætlunar um þörfina fyrir tækjakaup á Landspítalanum. Við fáum það skjal vonandi inn í þingið á næstu vikum til að vinna með en mér þykir vænst um það, eftir að hafa farið í gegnum 1. umr. fjárlaga, að það er góður samhljómur í þinginu um það markmið að skila ekki (Forseti hringir.) fjárlögunum í halla.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leggja málið (Forseti hringir.) þannig upp að sama hvað við gerum förum við ekki í mínus með fjárlögin.