143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

rekstur Íbúðalánasjóðs.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Málefni Íbúðalánasjóðs hafa verið til skoðunar undanfarin ár og sjóðurinn sjálfur hefur ekki setið auðum höndum, eða stjórnendur hans, heldur hefur komið fram í umræðunni að sjóðurinn hafi verið að velta fyrir sér möguleikanum á því að taka upp skilmála skuldabréfa. Þau orð sem ég lét falla í því samhengi voru einfaldlega að ef til þess kæmi vonaðist ég til þess að lánardrottnar sjóðsins yrðu sveigjanlegir í þeim viðræðum.

Það sem ríkisstjórnin er með á prjónunum er að taka til heildarendurskoðunar húsnæðislánakerfið inn í framtíðina og Íbúðalánasjóður, jafn stór hluti og hann er af íbúðalánakerfinu, hlýtur að koma inn í þá mynd. Mér finnst augljóst að við eigum og þurfum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að uppgreiðsluvandi Íbúðalánasjóðs og rekstrarvandi hans að öðru leyti verði viðvarandi viðfang á fjárlögum inn í framtíðina. Það þótti ekki annað varlegt fyrir árið 2014 en að gera ráð fyrir því að sjóðurinn yrði rekinn með einhverju tapi svipað og verið hefur á komandi ári en mér skilst að sjóðurinn hafi verið með eitthvað um 3 milljarða tap fram eftir þessu ári.

Í sjálfu sér er þetta mál þannig vaxið að ríkissjóður er í ábyrgðum fyrir skuldbindingum sem slaga hátt í 1 þús. milljarða. Þess vegna er þetta mál eitt af meira aðkallandi verkefnum okkar á efnahagshlið ríkisfjármálanna og vonandi tekst okkur að vinna hraðar og betur en gert hefur verið undanfarin ár vegna þess að mér finnst of lítið hafa gerst í því að greiða úr þessum vanda frá því að hann varð ljós.