143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil segja það við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að hún má ekki taka orð mín þannig að ég sé andstæður hennar sjónarmiðum. Ég tel að þau sjónarmið séu mjög mikils virði og ég tel að það skipti miklu máli fyrir þróun umræðunnar og líka fyrir það hvernig Kínverjar verða þess áskynja hvaða viðhorf menn hafa að svona sjónarmið komi fram. Ég hef í þessari umræðu, vegna þess að þetta eru grundvallaratriði, reynt að skýra afstöðu mína og hv. þingmaður veit þá hvernig hún er.

Að því er varðar það sem hv. þingmaður taldi mjög mikilvægt að væri bent á af hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni þá er engin breyting þar í þeim samningi. Þetta er stefna Íslands og búin að vera síðustu 40 árin. Hún var forsenda þess að tekið var upp stjórnmálasamband við Kína og það hefur ekkert með það að gera hvort við höfum samskipti við Tævan, þ.e. viðskiptaleg samskipti, eða ekki. Hins vegar hefur það verið stefna Íslands að Tævan sé partur af alþýðulýðveldinu, það er bara svoleiðis. Og ég er þeirrar skoðunar og hef reyndar rökstutt það áður í ræðustól.

Um fríverslunarsamninginn sem hérna liggur fyrir hef ég þegar sagt að ég tel að hann sé mikils virði og ég fór nokkrum orðum um hvernig ég tel að hægt sé að nýta hann vegna sjávarútvegsins. Það er auðvitað fjölmargt annað sem hann opnar líka. Hann skapar ný tækifæri og það sem mig langar til dæmis að benda á, eitt af því sem er kannski partur af hinum duldu ávinningum — frú forseti, ég er ekki í andsvari.

(Forseti (ValG): Nei, þú ert ekki í andsvari.)

Það blikkar hér og 22 sekúndur eftir.

(Forseti (ValG): Já, skrýtið.)

Eitt af því sem maður má kannski kalla dulinn ávinning af þessum samningi og sem opnar færi er sú staðreynd að samningurinn gerir það að verkum að það falla niður tollar á innflutningi eða útflutningi á ýmsum iðnaðarvarningi eins og til dæmis koltrefjum. Koltrefjar eru nýtt efni sem verður notað mikið í framtíðinni í flutningum, í að búa til flugvélar og bíla. Fyrir bankahrun voru komnar hugmyndir um það á skagfirska efnahagssvæðinu, sem hæstv. utanríkisráðherra er vel kunnugt um, að búa til verksmiðju sem framleiddi koltrefjar og flytti til útlanda. Með samningnum fellur niður ókleift tollafjall, þ.e. 18% tollar að því er varðar Kína. Ég tel að hæstv. utanríkisráðherra gæti notað þetta til þess að slást fyrir því að menn færu aftur að leggja drög að því að reisa hér koltrefjaverksmiðju sem þarf orku, en þetta eru tiltölulega litlar verksmiðjur og henta vel. Ég gæti svo sagt hæstv. utanríkisráðherra hvar ég tel að ætti að setja slíka verksmiðju niður, en það er nú önnur saga.

Mér fannst athyglisverð umræða spretta áðan um fríverslunarsamninga. Hv. þm. Óli Björn Kárason var með hugmynd sem mér finnst allrar athygli verð, þ.e. að Íslendingar skoði hvort það geti orðið partur af þróunaraðstoð að gera fríverslunarsamninga við þróunarríkin. Þá er ég náttúrlega fyrst og fremst að hugsa um þau ríki sem við höfum sérstaka samninga við. Ég tel að það komi mjög vel til greina og fagna því að úr hópi stjórnarliða komi fram slík hugmynd. Ég er til í að skoða það ítarlegar í utanríkismálanefnd. Það gæti þá falið það í sér að við gerðum sérstaka tvíhliða fríverslunarsamninga við lönd eins og Malaví, Úganda og Mósambík, sem við eigum í formlegu þróunarsamvinnusambandi við.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að halda áfram að horfa á þann hluta heimsins sem Kína tilheyrir. Þarna er mesti efnahagsvöxturinn, þarna eru að verða til mjög sterk efnahagsveldi. Hin landfræðilega stórpólitík er þannig að samningurinn sem við erum að gera núna við Kína gerir það að verkum að önnur ríki munu líka hafa áhuga á að gera slíkan samning við okkur, lönd eins og Indland. Það er í gangi gerð marghliða samnings í gegnum EFTA við Indland. Ég tel sömuleiðis að Suðaustur-Asía sé heimshluti sem við eigum að beina sjónum okkar að. Það hafa verið lögð drög að slíkum samningum í gegnum EFTA gagnvart Víetnam, Malasíu og nú síðast líka Mjanmar. Ég tel að hæstv. ráðherra eigi að halda áfram að opna þessa Asíugátt. Þarna eru að koma upp mestu markaðir í heimi, þarna er að verða til langfjölmennasta millistéttin af öllum svæðum heimsins og það er hún sem drífur efnahagskerfi heimsins.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að við náum þessum samningum eins og er að gerast þarna. Á þeirri braut eigum við að halda áfram.