143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

dómstólar.

93. mál
[16:00]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Ég get upplýst hv. þm. Helga Hjörvar um það að ég er mikill stuðningsmaður þess að koma á millidómstigi. Það mun auðvitað kosta einhvern pening en á móti verður Hæstiréttur ódýrari. Aðalástæðan er þó sú að stofnun millidómstigs er í mínum huga til að tryggja það að allir eigi möguleika á endurskoðun á málum. Í sakamálum í dag kemur til að mynda ekki til álita að sönnunarfærslan sé endurmetin. Hún fer bara fram á einu dómstigi. Það kemur ekki heim og saman við mannréttindasáttmála Evrópu ef menn vilja velta því fyrir sér að menn geti ekki fengið endurskoðun á máli.

Að öðru leyti er ástæðan fyrir millidómstigi sú að við fáum raunverulegan Hæstarétt sem tekur á fordæmisgefandi málum, hann hafi þokkalegan tíma til þess, hver dómari væri ekki að afgreiða um og yfir 300 mál á ári heldur væri í 50–70 málum sem þyrfti að koma í endanlega niðurstöðu. Ég veit að þetta mun kosta einhvern pening en ég held að hagræðið á móti gæti verið talsvert þannig að þegar upp er staðið sé þetta lítill peningur og þegar við metum þetta miðað við annað sem við þurfum að eyða. Allir héraðsdómstólarnir kosta ríkið kannski 800 milljónir sem er alveg ótrúlega lítill peningur miðað við hvað við eyðum í margt annað. Þó er héraðsdómur algjör grunnstoð. (Forseti hringir.) Við verðum að velta þessu fyrir okkur í þessu samhengi.