143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Svo að því sé haldið til haga í þessari umræðu þá hefur talsmaður neytenda, sem er embætti sem þetta lagafrumvarp mun leggja niður, verið einn ötulasti málsvari lántakenda hjá hinu opinbera. Þegar ég heyri að leggja eigi embættið niður og að sú tillaga hafi komið frá hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, þá set ég strax spurningarmerki við það.

Talsmaður neytenda krafðist þess ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna að fá heimild frá innanríkisráðuneytinu — samkvæmt lögum um lögbann og dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda — til að geta lagt fram lögbann og hafið dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda út af því að innanríkisráðherra var ekki að sinna því á þeim tíma, en hann hefur líka heimild samkvæmt þeim lögum til að krefjast lögbanns og hefja öll dómsmál sem þarf til að tryggja heildarhagsmuni neytenda og í þessu tilfelli lántakenda.

Talsmaður neytenda fór ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna fram á lögbann hjá sýslumanni á innheimtum gengistryggðra lána og talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna kærðu svo ákvörðun sýslumanns sem hafnaði lögbannsbeiðninni og þau kærðu alla leið upp í Hæstarétt. Þó að Hæstiréttur hafi á endanum hafnað lögbannsbeiðninni hafa talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna bætt hag neytenda, þ.e. lántakenda, gríðarlega.

Hæstiréttur hafnaði lögbannsbeiðninni á þeim forsendum að þeir sem hefðu misst heimili sitt á nauðungaruppboði gætu farið fram á skaðabætur síðar. Skaðabótakrafan hefur því verið staðfest af Hæstarétti vegna þess að talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna fóru af stað í þessa vegferð. Í öðru lagi hefur Hæstiréttur staðfest að lögin um lögbann og dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda eru virk og að þau eru virk á Íslandi milli lögaðila sem báðir eru staðsettir á Íslandi og eru íslenskir. Um þetta var vafi, en þetta hefur fengist staðfest.

Hæstv. innanríkisráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur því heimild, samkvæmt þessum lögum, til að hefja dómsmál sem þarf til að tryggja heildarhagsmuni neytenda. Þetta er skýrt vegna þess að talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna fóru í þessa vegferð. Hæstv. fyrrverandi innanríkisráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefði getað farið í þessa vegferð en talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna kröfðust þess lengi vel, og þurftu virkilega að hafa fyrir því, að fá þessa heimild og fara í þessa vegferð.

Spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur er þessi: Þegar það embætti er lagt niður sem verið hefur einn ötulasti málsvari innan hins opinbera fyrir hagsmunum lántakenda í þessu landi, þegar það embætti er lagt niður með þessum lögum og fellt inn í Neytendastofu, fylgir þá heimildin, sem talsmaður neytenda hefur til að krefjast lögbanns og að fara í dómsmál til að tryggja heildarhagsmuni neytenda, þessum samruna inn í Neytendastofu?