143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[17:52]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða frumvarp til laga um viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila. Í 1. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Ríkissjóði Íslands er heimilt að stuðla að lækkun eftirstöðva lánsveðslána lífeyrissjóða, sem tekin voru fyrir 1. janúar 2009, með því að greiða til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs sem svarar allt að 90% af kostnaði við niðurfærslu á eftirstöðvum slíkra lána.“

Einnig stendur í fylgiskjali með frumvarpinu sem er viljayfirlýsingin um aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila að meðtöldum lánsveðslánum, með leyfi forseta:

„Ráðherranefnd um skuldamál heimilanna, f.h. ríkisstjórnar Íslands, og Landssamtök lífeyrissjóða, f.h. hlutaðeigandi lífeyrissjóða, eru sammála um að vinna að framgangi aðgerða í þágu heimila, þar sem staða veðlána sem tekin voru til öflunar íbúðarhúsnæðis sem ætlað er til heimilishalds lántaka eru umfram 110% af verðmæti fasteignar að meðtöldum skuldum sem tryggðar eru með veði í fasteign í eigu þriðja aðila.“

Þegar sú frétt barst í vor að þessi viljayfirlýsing lægi fyrir og að þetta frumvarp væri þar af leiðandi í bígerð, fagnaði sú sem hér stendur mjög. Ég var með veð hjá foreldrum mínum og geri mér fullkomlega grein fyrir því hvers konar tilfinning það er, ekki að veðsetja einhvern nákominn sér til að fá aðstoð við það t.d. að kaupa sína fyrstu íbúð, heldur líka að biðja um þann stóra og mikla greiða, að óska eftir veði í eignum annarra.

Því miður hefur það verið veruleiki margra. Það eru ekki margir sem sitja að arfi eða afla sér nógu mikilla tekna til þess að geta safnað þeim háum fjárhæðum sem þarf til að festa kaup á sínu fyrsta húsnæði. Það er því miður ekki til leigumarkaður á Íslandi til að anna eftirspurn og hefur í rauninni aldrei verið til. Þetta hefur því oftar en ekki verið sú leið sem fólk hefur þurft að fara til þess að geta komið sér þaki yfir höfuðið. Þá hafa góðviljaðir foreldrar eða aðrir þurft að veita veð í húsnæði sínu sem þeir hafa gegnum áratugina barist í bökkum við að borga upp.

Ég hef áhyggjur af þeim hópi af því að ég hef sterkan grun að þessi hópur ungs fólks sem er að kaupa sitt fyrsta húsnæði sitji fastur. Það eru ekki bara þeir sem keyptu fasteignina sem sitja fastir heldur líka sá sem veitti veðið. Hann situr pikkfastur.

Það eru margföldunaráhrif af þessu. Í rauninni sitja lífeyrissjóðirnir líka pikkfastir, þeir sitja fastir samkvæmt lögum og geta ekki veitt neinar niðurfellingar.

Það sló mig mjög þegar frummælandi, fyrrverandi fjármálaráðherra, fór yfir að að baki frumvarpinu liggur mikil og ströng vinna. Það var ekki reitt fram korteri fyrir kosningar. Búið var að liggja yfir þessum hópi og þessari vinnu í ár ef ekki tvö ár áður en til viljayfirlýsingarinnar kom. Því veldur það mér miklum vonbrigðum að það er ekkert um þetta í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014.

Það verður að jafna leikinn. Það þarf að jafna stöðuna. Fólk sem er með slík lán, sem voru hagstæðari lán, situr fast og það situr ekki við sama borð og þeir sem voru með hærri lán hjá viðskiptabönkunum.

Mig langar að spyrja frummælanda, fyrrverandi fjármálaráðherra og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Ég rek augun í það hér að gerð var athugun sem leiddi í ljós að heildarfjöldi skuldara með lánsveð var 6.746, af þeim höfðu 3.929 manns nýtt lánsveðið til að fjármagna íbúðakaup en 2.817, eða 41,7% höfðu notfært sér það í öðrum tilgangi. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið gerð frekari hópagreining á þessum tiltekna hópi, t.d. aldursgreining, barnagildi og fleira og hvort sá hópur á heima með þeim sem Seðlabankinn hefur lýst yfir miklum áhyggjum af, þeim hópi sem ber hvað hæstu greiðslubyrðina og hefur minnsta kaupmáttinn í samfélagi okkar?

Ég hef áhyggjur af því að ekkert er um þetta í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 og af því hvort einhver tímasetning sé á þessari viljayfirlýsingu með lífeyrissjóðum landsins. Þetta opna samstarf um að móta þetta frumvarp, hvað höfum við þann fugl í hendi lengi?