143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

12. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir þessu máli fyrir hönd frummælanda málsins, hv. þm. Róberts Marshalls, en gjörvallir þingmenn Bjartrar framtíðar og Pírata leggja málið fram saman. Þetta er frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

Eins og margir hafa gjörla tekið eftir er ég mikill talsmaður þess að skapaður verði skýr og góður lagarammi um það hvernig hægt er að koma upplýsingum til almennings er varða almannahag. Því er það mikið fagnaðarefni að hér er lagður fram metnaðarfullur lagarammi um málefni af því tagi.

Ég ætla ekki að lesa í gegnum greinar frumvarpsins en ætla að fara aðeins yfir greinargerðina. Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér málið því að það hefur verið rætt hérlendis sem erlendis að ef það hefði verið til staðar góð uppljóstraralöggjöf og góður hvati fyrir uppljóstrara fyrir hrun hefði ef til vill skapast grundvöllur fyrir þá sem vissu að eitthvað var ekki með felldu og höfðu um það upplýsingar og þá hefði verið góður möguleiki á því að bankahrunið hefði ekki orðið eins afdrifaríkt.

Í greinargerðinni segir:

„Frumvarp þetta var áður lagt fram á 141. löggjafarþingi og gekk þá til allsherjar- og menntamálanefndar. Nefndinni bárust umsagnir frá ýmsum hagsmunaaðilum sem almennt tóku vel í þær tillögur sem frumvarpið hefur að geyma. Frumvarpið er hér lagt fram óbreytt.

Skoðana- og tjáningarfrelsið eru í flokki elstu og mikilvægustu réttinda þegnanna og eru óumdeilanlega ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags. Skoðana- og tjáningarfrelsi er verndað í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Mikilvægi verndar tjáningarfrelsis er óumdeilanlegt og er vegur þess mikill í íslenskri stjórnskipan. Löggjafinn hefur tryggt réttinn til tjáningar með lagasetningu á æ fleiri sviðum og þá hafa dómstólar margsinnis viðurkennt vernd tjáningarfrelsisins í dómaframkvæmd sinni. Tjáningu fylgir einnig ábyrgð og hefur verið litið svo á að opinberlega megi tjá sig um þau málefni sem eigi erindi til almennings. Þannig er óheimilt að takmarka tjáningu um málefni sem eiga erindi til almennings, varða þjóðfélagið og eru innlegg í þjóðfélagslega umræðu.

Ef löggjafinn eða dómstólar ganga of langt í að takmarka eða skerða tjáningarfrelsi er hætt við svokölluðum kælingaráhrifum sem geta fælt einstaklinga frá því að tjá sig um málefni sem jafnvel eiga fullt erindi til almennings og varða almannahagsmuni.

Snar samfélagslegur ávinningur felst í því að koma í veg fyrir háttsemi sem felur í sér misgerð, rannsaka slíka háttsemi hafi hún þegar átt sér stað eða valdið tjóni, eða, eftir atvikum, upplýsa almenning um slíka háttsemi þegar hún varðar almannahagsmuni og jafnvel veldur tjóni á almannahagsmunum. Veigamikill þáttur í að öðlast þennan samfélagslega ávinning er að þar til bærir aðilar, m.a. þeir sem hafa aðstöðu að lögum til að rannsaka slíka misgerð, verði gert aðvart um hana eða fái tækifæri til að bregðast við henni, m.a. í því skyni að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir það tjón sem af slíkri misgerð kann að stafa eða refsa þeim sem ábyrgð bera á slíkri misgerð og því tjóni sem af henni kann að hafa hlotist.

Þá má nefna að í alþjóðasamningum hefur einn mikilvægasti þátturinn í að uppræta og upplýsa um spillingu og misgerðir verið að stuðla að vernd þeirra sem koma upplýsingum um slíkt á framfæri. Má um það meðal annars vísa til 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu og 9. gr. samnings Evrópuráðsins á sviði einkamálaréttar um spillingu og 22. gr. samnings Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu.

Vakin er athygli á því að um áratugaskeið hafa uppljóstrarar gegnt veigamiklu hlutverki í að miðla upplýsingum um misgerðir til rannsóknar- eða eftirlitsaðila eða jafnvel til fjölmiðla, þannig að allur almenningur verði um þær upplýstur.

Fjöldamörg alþekkt dæmi má nefna erlendis frá, eins og Mark Felt sem gekk undir nafninu Deep Throat en hann upplýsti blaðamennina Woodward og Bernstein um misgerðir Richards Nixons á meðan hann gegndi embætti forseta Bandaríkjanna. Þá má nefna Karen Silkwood sem ásakaði Kerr-McGee-orkuveituna um umhverfisafglöp og lést sviplega skömmu seinna. Sherron Watkins gegndi lykilstöðu hjá bandaríska orkufyrirtækinu Enron. Þegar hún tilkynnti Kenneth Lay, stjórnarformanni fyrirtækisins, um stórfelldar bókhaldsmisfellur hjá fyrirtækinu var hún færð niður um stöðu og hætti síðan störfum ári síðar. Nýlegustu erlendu dæmin eru uppljóstranir sem farið hafa fram á vefsíðunni WikiLeaks.“

Það vill svo til að ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hitta marga og verið í samskiptum við marga af þeim uppljóstrurum sem ég hef litið til með virðingu. Má þar helst nefna Daniel Ellsberg sem svo sannarlega breytti gangi heimssögunnar með því að upplýsa um hvernig raunverulega var ástatt í Víetnamstríðinu. Ég get nefnt fleiri, m.a. uppljóstrara frá Hollandi sem sýndu fram á stórfelld svik hjá verktakafyrirtækjum þar o.s.frv. Ég hef lagt mig mjög fram við að reyna að finna út úr því hvernig sé hægt að gera bestu mögulegu uppljóstrara- eða afhjúpendalöggjöf fyrir Ísland. Þetta er mjög sérstakt land því að við erum svo fá og það er erfitt fyrir þá sem vilja láta vita ef eitthvað fer úrskeiðis því að það er svo auðvelt að finna út hverjir þeir eru. Oft eru til dæmis ekki margir um sérfræðistöður og alþekkt er dæmið um einn fræðimann sem varaði við umhverfisframkvæmdum og gat ekki fengið sambærilega vinnu eftir að hann gerði það þegar hann veitti stjórnvöldum aðhald.

Í greinargerðinni segir áfram:

„Í íslensku þjóðfélagi hafa uppljóstrarar einnig ítrekað gegnt mikilvægu hlutverki við að koma upplýsingum um misgerðir gegn almannahagsmunum á framfæri til almennings. Þess konar mál koma reglulega í þjóðfélagsumræðuna fyrir tilstilli fjölmiðla. Þau mál geta átt brýnt erindi til almennings en minna hefur þó farið fyrir umfjöllun um afleiðingar umfjöllunarinnar fyrir þann sem miðlaði upplýsingunum til fjölmiðla, þ.e. fyrir uppljóstrarann. Algengt er að þar hafi verið um að ræða starfsmann þess fyrirtækis sem upplýsingarnar varða í hvert sinn. Jafn algengt er að slíkur starfsmaður missi í kjölfarið starf sitt, þó svo að ekki fari alltaf jafn mikið fyrir fréttaflutningi af afleiðingum af slíku fyrir starfsmanninn.

Fyrrgreindar afleiðingar og aðrar verri hafa eðli málsins samkvæmt kælingaráhrif á miðlun upplýsinga sem þessara þar sem uppljóstrarar hljóta að veigra sér við að koma upplýsingunum á framfæri af ótta við afleiðingarnar. Þeir eru einnig oft bundnir lagalegum eða samningsbundnum trúnaðarskyldum gagnvart vinnuveitanda sínum og gætu jafnframt átt á hættu að þurfa að sæta afleiðingum uppljóstrunar á þeim vettvangi. Þá geta refsiákvæði átt við þegar þagnarskyldu- eða trúnaðarskylduákvæði laga eru brotin.

Af sambærilegum ástæðum hafa fjöldamörg ríki þegar breytt lögum eða hafið slíkt ferli til verndar uppljóstrurum til að hvetja einstaklinga til að miðla upplýsingum um misgjörðir.

Þó áður hafi verið lögð fram mál þar sem reynt var að tryggja réttarstöðu uppljóstrara eins og mál Bryndísar Hlöðversdóttur frá 130. löggjafarþingi um breytingu á ýmsum lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðlamanna og heimildarmanna þeirra og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla líka þá hefur enginn sérstakur reki verið gerður að því á Íslandi að setja heildarlög til verndar uppljóstrurum fyrr en nú. Núgildandi lagaleg vernd uppljóstrara samkvæmt íslenskum lögum lýtur aðallega að þeim sem njóta verndar sem heimildarmenn fjölmiðla. Fjölmiðlum er ekki skylt að greina frá nafni heimildarmanna sinna. Við rannsókn á leka geta því til að mynda rannsóknaraðilar ekki upplýst um hver sé uppljóstrari og þar með heimildarmaður að tiltekinni frétt í fjölmiðlum með því að rannsaka húsakynni fjölmiðilsins í leit að nafngreiningu heimildarmannsins. Þá verða starfsmenn fjölmiðla heldur ekki leiddir fyrir dóm til að upplýsa um hverjir heimildarmenn þeirra séu, samanber Hæstaréttardóm nr. 419/1995 í máli Rannsóknarlögreglu ríkisins gegn Agnesi Bragadóttur og ákvæði 25. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Hins vegar njóta uppljóstrarar ekki sambærilegrar verndar, hvorki á eigin vinnustað né heimili, séu þeir ekki blaðamenn og vinnustaður þeirra ekki fjölmiðill.

Á evrópskum vettvangi má meðal annars nefna dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tillack gegn Belgíu. Tillack var blaðamaður sem ritaði og birti greinar sem byggðar voru á trúnaðargögnum sem fengin voru frá Evrópuskrifstofu ESB um aðgerðir gegn fjársvikum. Evrópuskrifstofan grunaði blaðamanninn um að hafa mútað opinberum starfsmanni til að afhenda sér gögnin sem greinarnar byggðust á og hóf rannsókn á lekanum. Þegar sú rannsókn reyndist árangurslaus kærði Evrópuskrifstofan blaðamanninn til yfirvalda sem hófu rannsókn á lekanum og meintum mútum til opinbers starfsmanns. Í kjölfarið voru framkvæmdar húsleitir hjá blaðamanninum á heimili hans og skrifstofu og hald lagt á ýmis gögn. Aðgerðirnar gegn blaðamanninum voru af Mannréttindadómstólnum álitnar vera brot á tjáningarfrelsi blaðamannsins.

Evrópuþingið hefur ítrekað ályktað um nauðsyn á aukinni vernd uppljóstrara. Ber þar hæst ályktun 1729 frá 2010 og ályktun 1916 frá 2010. Í fyrri ályktuninni eru uppljóstrarar skilgreindir sem einstaklingar sem vekja athygli á ástandi til að koma í veg fyrir misgjörðir sem setji aðra þjóðfélagsþegna í tiltekna hættu. Lögð er áhersla á að uppljóstranir séu tækifæri til að láta aðila bera ábyrgð í þjóðfélaginu og séu vopn í baráttunni gegn spillingu og óstjórn, bæði á opinberum vettvangi en einnig í einkageiranum. Í ályktuninni kemur fram að mikill fælingarmáttur sé fólginn í óttanum við hefndaraðgerðir fyrir fyrirhugaða eða hugsanlega uppljóstrara. Bent er á að í Bretlandi finnist nýleg dæmi um stórslys sem hefði mátt koma í veg fyrir og að það hafi orðið til þess að þar voru sett framsækin lög um vernd uppljóstrara, eins og nánar er fjallað um hér síðar. Hins vegar hafi fæst aðildarríki Evrópusambandsins sett jafn yfirgripsmikil lög og Bretland varðandi slíka vernd. Vissulega séu þó til staðar ýmsar en misvíðtækar reglur í ríkjunum varðandi hina ýmsu þætti uppljóstrunar.

Evrópuþingið hvetur í ályktun sinni öll aðildarríki til að yfirfara löggjöf sína með tilliti til verndar uppljóstrurum og getur sérstaklega ýmissa leiðbeinandi meginreglna sem hafa á að leiðarljósi. Leiðbeiningarreglurnar í ályktuninni hafa verið leiðarljós við samningu lagafrumvarps þessa að því leyti að gætt hefur verið að því að ekki sé gengið skemur í vernd á uppljóstrurum heldur en þar er kveðið á um. Helstu efnisatriði leiðbeiningarreglna ályktunarinnar eru eftirfarandi:

Leiðbeiningarreglurnar kveða á um að sett verði víðfeðm löggjöf sem taki bæði til hins opinbera og einkaréttarlegra uppljóstrana. Fjallað er um að öll miðlun upplýsinga sem undir lögin fellur sé heimil um alls kyns ólögmæta háttsemi, m.a. öll mannréttindabrot sem ógna eða hafa áhrif á líf, heilsu, frelsi og aðra lögmæta hagsmuni einstaklinga sem eru undirseldir reglum stjórnsýslunnar, eru skattgreiðendur eða jafnvel hluthafar, starfsmenn eða viðskiptavinir einkafyrirtækja.

Setja þurfi lagareglur á sviði vinnuréttar til að vernda uppljóstrara gegn ólögmætum uppsögnum. Þá þurfi að setja reglur á sviði refsiréttar og réttarfars sem verndi uppljóstrara gegn refsingum fyrir meiðyrði eða brot á þagnarskylduákvæðum laga. Einnig þurfi að setja reglur á sviði fjölmiðla til verndar heimildarmönnum. Jafnframt þurfi að grípa til aðgerða til að sporna við spillingu.

Lögð er áhersla á að löggjöf um vernd uppljóstrara eigi að veita uppljóstrurum annan valkost en að þegja um vitneskju sína sem og hvetja stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja til að setja sér innri reglur um ferli til uppljóstrunar. Þannig megi tryggja rannsókn misgjörða og að upplýsingum sé miðlað áfram til þeirra valdameiri innan fyrirtækja eða stofnana eða enn lengra ef nauðsyn þykir. Nafnleysi uppljóstrara eigi að hafa í heiðri nema uppljóstrarinn sjálfur vilji koma fram undir nafni eða ef nauðsynlegt er að greina frá nafni hans til að koma í veg fyrir alvarlega og yfirvofandi ógn við almannahagsmuni.

Löggjöfin eigi að vernda alla þá sem í góðri trú nýta sér innri uppljóstrun gagnvart mögulegum hefndaraðgerðum. Ef engir ferlar fyrir innri uppljóstrun eru til staðar eða virka ekki sem skyldi eða uppljóstrarinn hefur ástæðu til að ætla að þeir virki ekki með vísan til efnis upplýsinganna þá eigi einnig að tryggja möguleika á ytri uppljóstrun, m.a. á vettvangi fjölmiðla. Uppljóstrari skal talinn vera í góðri trú hafi hann ástæðu til að ætla að miðlaðar upplýsingar séu réttar, jafnvel þó að síðar komi í ljós að svo var ekki. Þá skal uppljóstrari talinn vera í góðri trú ef háttsemi hans við uppljóstrunina er hvorki ólögleg né ósiðleg. Löggjöf skal kveða á um leiðir fyrir uppljóstrara til að gæta hagsmuna sinna og leiðrétta allar misgjörðir gegn uppljóstrara sem framdar eru vegna uppljóstrunar. Þá skal einnig kveða á um vernd gegn ásökunum sem gerðar eru í vondri trú.

Ályktun Evrópuþingsins nr. 1916 frá 2010 inniheldur tilmæli þingsins til ráðherraráðsins að semja leiðbeiningarreglur um vernd uppljóstrara. Þá eru ríki hvött til að yfirfara fyrirliggjandi löggjöf sinna heimalanda og meta hvort hún standist þau lágmarksskilyrði sem sett eru fram í ályktununum tveimur. Jafnframt er hvatt til gerðar alþjóðasamnings um vernd uppljóstrara.“

Þetta er eitt atriði sem er gríðarlega mikilvægt. Þegar þetta frumvarp var fyrst samið og sett saman hafði maður nokkur sem heitir Edward Snowden ekki komið upp á yfirborðið. Það sem hann lendir í er að honum er meinað vegna pólitísks þrýstings að finna sér skjól í öðrum löndum. Því hafa mörg samtök, til að mynda samtökin Blaðamenn án landamæra eða Reporters Without Borders, sem ég fundaði með í sumar, farið í þá vinnu að byrja að skilgreina og þrýsta á að alþjóðasamningar um vernd uppljóstrara verði að veruleika sem fyrst, því að það er ekki til neitt sem heitir örugg lönd, það er ekki hægt að skilgreina neitt land þannig. Það getur alltaf komið upp sú staða að uppljóstrari, eins og t.d. Edward Snowden, lendi í þeirri stöðu að honum sé mikil hætta búin ef hann snýr aftur til síns heimalands. Það verður því spennandi að sjá hvort eitthvað fari ekki að gerast hjá Evrópuþinginu og á víðari vettvangi varðandi þessi mál nákvæmlega því að ályktunin er frá árinu 2010 og margt hefur breyst síðan.

Svo ég haldi áfram að lesa úr greinargerðinni:

„Á seinustu árum hefur orðið vitundarvakning í Evrópu um nauðsyn þess að vernda uppljóstrara sérstaklega gagnvart hugsanlegum afleiðingum miðlunar upplýsinga um misgjörðir. Vissulega eru hin ýmsu lönd komin mislangt á leið með að útfæra og lögfesta slíka vernd, en í dæmaskyni má nefna að Danir hafa ekki lögfest ákvæði um uppljóstrara en til samanburðar hefur vernd tjáningarfrelsisins, til dæmis í stjórnarskrám Noregs og Svíþjóðar, verið túlkuð á þá leið að uppljóstrarar njóti þeirrar verndar sem þar er kveðið á um.“

Það er gaman frá því að segja að í þeim stjórnarskrárdrögum sem hér voru lögð fram á Alþingi á síðasta kjörtímabili og fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tæplega ári síðan, þann 20. október, var einmitt tekið tillit til þessa og vernd uppljóstrara og vernd heimildarmanna tekin sérstaklega fram sem og að stjórnarskrá tryggði þriðju kynslóðar upplýsingafrelsi og löggjöf.

Ég held áfram:

„Í Noregi kveður stjórnarskráin á um að enginn verði fundinn sekur á þeim grundvelli að hafa deilt upplýsingum eða móttekið upplýsingar, hugmyndir eða skilaboð nema slíkt sé hægt að réttlæta að teknu tilliti til tjáningarfrelsisins. Þá er stjórnarskrárvarinn rétturinn til að tjá sig um stjórnun ríkisins og hvert annað atvik. Í norskum lögum á þessu sviði virðist jafnframt hafa verið tekið mið af nauðsyn þess að tryggja vernd starfsmanna gagnvart atvinnuveitendum sínum. Þannig leggja Norðmenn bann við hefniaðgerðum vegna uppljóstrunar í lögum um atvinnuöryggi og tekur það jafnt til opinberra starfsmanna sem starfsmanna í einkareknum fyrirtækjum. Í lögunum er starfsmönnum tryggður réttur til að tilkynna grun sinn um misgerð og þá er hvatt til innri uppljóstrunar, samhliða er gert ráð fyrir því uppljóstrari geti valið um að nafni hans sé haldið leyndu.

Í sænsku stjórnarskránni er sérstaklega kveðið á um rétt opinberra starfsmanna til að tjá sig um atriði sem lúta að starfi þeirra. Starfsmenn einkarekinna fyrirtækja njóta hins vegar ekki verndar sænsku stjórnarskrárinnar gagnvart atvinnuveitendum sínum og þá getur möguleiki starfsmanna til að miðla upplýsingum takmarkast af kjarasamningum og öðrum samningum einkaréttarlegs eðlis.

Ólíkt Noregi og Svíþjóð hafa Danir ekki lögfest sérstakt ákvæði um vernd uppljóstrara heldur virðist vernd þeirra fara fram á vettvangi sveitarfélaganna sem mörg hver hafa sett málsmeðferðarreglur fyrir innri uppljóstrun og aðrar reglur til þess fallnar að vernda uppljóstrara.

Önnur lönd, svo sem Bretland, hafa gengið enn lengra í vernd uppljóstrara en nágrannalöndin. Hrina mála, sem höfðu afar alvarlegar samfélagslegar afleiðingar, skók Breta á árunum 1987–1988, svo sem þegar mótorskipið Herald of Free Enterprise sökk árið 1987 með þeim afleiðingum að 193 farþegar létust. Þá varð járnbrautarslys við Clapham Junction-lestarstöðina árið 1988 þegar lestir rákust saman með þeim afleiðingum að 35 manns létust og um það bil 500 manns slösuðust. Enn eitt áfallið, sem talið er að hefði verið hægt að koma í veg fyrir, var fall bankans Bank of Credit and Commerce International árið 1991 og er það því jafnan talið upp í tengslum við setningu laga um uppljóstrara. Rannsóknir sem gerðar voru í kjölfar þessara áfalla sýndu fram á að starfsmenn þeirra fyrirtækja sem um ræddi hefðu verið meðvitaðir um hættuna sem að steðjaði en töldu sig ekki geta miðlað þeim upplýsingum til viðeigandi aðila. Í kjölfar þessara rannsókna samþykktu Bretar Public Interest Disclosure Act (PIDA) árið 1998 sem þótti afar framsækin löggjöf.

Í Bandaríkjunum hefur vernd uppljóstrara gengið hvað lengst hvort sem um er að ræða réttinn til að vernda heimildarmenn, refsivernd, þagnarskylduvernd eða bótavernd. Komið hefur verið á fót málsmeðferðarúrræðum sem meðal annars heimila qui tam-málssóknir og þá hefur verið hvatt til uppljóstrana, svo sem í tengslum við skattsvik, með boðum um greiðslu á allt að 30% af þeim fjármunum sem endurheimtir eru vegna uppljóstrunarinnar. Í því sambandi ber að nefna að 12. september 2012 var ein hæsta greiðsla sem um getur greidd úr hendi Internal Revenue Service, 104 milljónir bandaríkjadala, til uppljóstrara sem miðlaði upplýsingum um starfshætti svissneskra banka sem gerðu amerískum ríkisborgurum kleift að skjóta undan greiðslum sem réttilega hefði átt að greiða til skattyfirvalda.

Eins og nú hefur verið rakið er mikil þörf á því að íslensk lög verði færð til samræmis við þær alþjóðlegu áherslur sem lagðar eru á aukna vernd uppljóstrara. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bregðast við þeirri þörf og hér lagt til að lögfest verði lagaákvæði sem kveða á um vernd uppljóstrara.“

Þegar þetta mál var lagt fram hér síðast hafði ég nokkrar athugasemdir við það og mun halda mér við þær athugasemdir áfram. Það vantar töluvert á skýrleika í málinu, en það er samt ekki svo að þeir ágallar séu þess eðlis að ekki sé hægt að laga þá í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vil beina því til nefndarmanna að skoða þær umsagnir sem komu við þetta frumvarp. Þær voru mjög gagnlegar og komu víða að, m.a. frá virtum fjölmiðlalagaprófessor frá Þýskalandi og virtum stofnunum, m.a. Open Democracy Advice Centre.

Ég legg eindregið til að við styrkjum lagastoðir og búum til heildstæða löggjöf, eins og kemur fram í þessu frumvarpi, til verndar uppljóstrurum, það er löngu tímabært. Ég vil taka fram að mikil vinna hefur verið unnin í þessu efni og hér kemur til með að vera lagt fram frumvarp sem er á málaskrá ríkisstjórnarinnar sem er byggt á þingsályktun um að Ísland taki sér afgerandi lagalega sérstöðu á sviði upplýsinga- og tjáningarfrelsis. Þar er sem sagt búið að greiða úr mörgum af þeim flækjum sem opinberir starfsmenn búa við þegar kemur að því hvar þagnarskyldan liggur og hvar upplýsingaskyldan er. Þetta hefur verið í miklum hrærigraut og fólk átt erfitt með að vita hver þeirra skylda er.

Ég fagna þess vegna mjög að það frumvarp komi fram og mun það vera góð stoð við þetta frumvarp til laga. Jafnframt tel ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að þetta er eitt sem þarf að einhenda sér í sem fyrst. Við erum með þessi frábæru lög, við erum með gríðarlega góð lög er varða vernd heimildarmanna t.d., en á meðan erlend lönd geta tekið öll okkar samskipti og vinsað úr þeim það sem þeim sýnist, þrátt fyrir að það sé brot á stjórnarskrá okkar, þá eru öll lög sem við höfum, þó að þau séu best í heimi, lítilsverð. Við verðum því að einhenda okkur í það að skilgreina hver friðhelgi einkalífsins er í hinum stafræna heimi.

Það hefur sem betur fer orðið mikil vitundarvakning um ástand mála út af mjög hugrökkum uppljóstrara sem heitir Edward Snowden. Hann hefur í raun og veru algjörlega bylt því hvernig fólk skilur það hvað friðhelgi er. Það hefur bara ekkert verið rætt almennilega hvar mörk friðhelginnar eru eftir Facebook.

Ég vonast til þess að við munum eiga í þingsal góðar og gagnlegar umræður er lúta að þessum mikilvægu málefnaflokkum sem mér þykir hve vænst um, er lúta að upplýsinga- og tjáningarfrelsi og réttinum á friðhelgi einkalífs.