143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[10:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og deili þeim áhyggjum sem hún hefur og þeim viðhorfum sem hún hefur um mikilvægi þess að gott samstarf sé á milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins. Ég hef lagt mig alla fram um það og meðal annars komið á mánaðarlegum samráðsfundum með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, formanni og framkvæmdastjóra, sem hefur skipt miklu máli og gefið okkur tækifæri til þess að fara reglulega yfir stöðuna.

Ég þekki þessi mál einnig ágætlega eftir að hafa setið í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga nokkuð lengi og veit þess vegna um mikilvægi jónsmessunefndarinnar og að hún skilaði ágætisstarfi á tímum sem voru mjög erfiðir fyrir sveitarfélög og ríki. Við höfum séð það þannig fyrir okkur, hæstv. forseti, að starf þessarar nefndar hefjist aftur, ef svo má orða það. Það hefur náttúrlega ekki verið slegið af heldur hefur verið í ákveðinni biðstöðu, eins og hv. þingmaður bendir á, en það er að hluta til vegna þess að aðalfundir landshlutasamtakanna hafa staðið yfir og vilji hefur verið til þess að leyfa því verkefni að klárast og leyfa þeirri vinnu í einstökum landshlutum að klárast áður en menn setjast aftur að því formlega borði sem kallað hefur verið jónsmessunefndin.