143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Löggjöfin um Fæðingarorlofssjóð sem var sett hér fyrir um tíu árum var mjög framsækin og á margan hátt einstök. Fæðingarorlofssjóður gegnir lykilhlutverki í kynjajafnréttismálum á Íslandi, gegnir lykilhlutverki á vinnumarkaði og gegnir lykilhlutverki hvað varðar gott umhverfi fyrir börn á Íslandi.

Fæðingarorlofssjóður er núna ekki eins og við viljum flest hafa hann, held ég, og mér finnst mjög áríðandi að við ræðum ekki um Fæðingarorlofssjóð eins og hann hefur verið undanfarin ár. Við eigum að ræða um Fæðingarorlofssjóð eins og við viljum hafa hann.

Fæðingarorlofssjóði er markaður sérstakur tekjustofn. Hann fær hlutdeild af almennu tryggingagjaldi og Fæðingarorlofssjóður er það brýnt hagsmunamál fyrir vinnumarkaðinn á Íslandi að það ætti að vera miklu ríkara samráð milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins um það hver tekjustofninn á að vera, hver prósentutalan á að vera. Það er nokkuð auðvelt að sjá fram í tímann og gera áætlanir um það hver fjárþörf Fæðingarorlofssjóðs er miðað við það hvernig við viljum hafa hann. Það ætti því að vera hægt að mynda nokkuð gott samráð ríkisstjórnar, ríkisvaldsins og vinnumarkaðarins um það einfaldlega hver prósentan á að vera og svo getum við haft Fæðingarorlofssjóð þannig.

Þetta var erfitt að gera eftir hrun vegna þess að atvinnuleysistryggingar tóku einfaldlega það mikið af tryggingagjaldi. Nú hefur atvinnuleysið minnkað og þar með hefur myndast svigrúm til að fara í þá vinnu að hafa Fæðingarorlofssjóð nákvæmlega eins og við viljum hafa hann og snúa vörn í sókn. Til stóð að gera það og það eru mikil vonbrigði að núna þegar þetta svigrúm hefur skapast sé hætt við lengingu fæðingarorlofs. (Forseti hringir.) Það þarf að lengja fæðingarorlof, það þarf að hækka þakið og það þarf að vinda sér í þessa vinnu í samráði við aðila vinnumarkaðarins.