143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

framtíðarsýn varðandi fæðingarorlof.

[11:28]
Horfa

Þorsteinn Magnússon (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að efna til þessarar umræðu sem er að sjálfsögðu mikilvæg, þ.e. hvernig við viljum hafa skipan fæðingarorlofsmála til framtíðar litið. Eins og hér hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna þá voru lögin um fæðingarorlof og Fæðingarorlofssjóð mikil réttarbót á sínum tíma. Lögin voru sett í tíð hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, og fólu í sér að karlmenn skyldu eiga jafnan rétt til fæðingarorlofs á við konur.

Markmið þessara laga var fyrst og fremst tvíþætt: Það var annars vegar að tryggja möguleika beggja foreldra á því að tengjast börnum sínum og tryggja að þeir gætu varið tíma með börnum sínum í frumbernsku. Fjölmargar rannsóknir, sérstaklega rannsóknir sem hafa verið gerðar á seinni árum, hafa sýnt fram á mikilvægi þess að börn tengist foreldrum sínum sem mest fyrstu mánuðina og árin. Þá um leið hafa rannsóknir sýnt fram á að það er óæskilegt að börn fari of snemma í dagvistun með öðrum börnum.

En hér er til umræðu hvort æskilegra sé að lengja fæðingarorlof eða hækka hámarkið. Nú er staðan þannig að hámarkið er mjög lágt, þ.e. 350 þús. kr., og það er veruleg hindrun fyrir marga á vinnumarkaði, það hefur sýnt sig, sérstaklega fyrir karlmenn. Þetta hefur komið í veg fyrir að þeir taki fæðingarorlof sem vinnur þá gegn hinu markmiðinu, sjónarmiðum um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði (Forseti hringir.) sem eru mjög mikilvæg í þessu sambandi og við þessa lagasetningu og þarf að halda til haga varðandi framtíðarskipan fæðingarorlofsmála.