143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

tekjuskattur.

15. mál
[12:49]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég og meðflutningsmenn mínir, hv. þingmenn Svandís Svavarsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, leggjum hér fram frumvarp þar sem eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt í þeim tilgangi að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun. Aukinheldur eru lagðar til nokkrar nauðsynlegar breytingar á tekjuskattslögunum svo taka megi reglurnar upp í lögin.

Við samningu þessa frumvarps leit ég til skýrslu starfshóps um reglur þunnrar eiginfjármögnunar sem hæstv. þáverandi fjármálaráðherra skipaði 13. september 2011. Sá starfshópur skilaði skýrslu sinni í júní 2012. Þar í raun og veru eru birtar nokkuð skýrar tillögur um hvernig megi innleiða þessar reglur í íslenska löggjöf en frumvarpið tekur líka mið af hugmyndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur hvatt Ísland til að taka upp reglur um þunna eiginfjármögnun. Síðan hefur vinna farið fram innan OECD í þessum efnum. Raunar má segja, þegar litið er yfir sviðið í Evrópu á þessum tímum, að umræða um þessi mál sé mjög áberandi, nú síðast í Bretlandi.

Markmið frumvarpsins er að bæta og þétta skattheimtu og tryggja að þær tekjur sem verða til hér á landi renni til samfélagsins og uppbyggingar þess. Með hugtakinu „þunnri eiginfjármögnun“ er vísað til fjármögnunar félags sem er fengin frá tengdum aðilum. Þannig er félag með þunna eiginfjármögnun ef skuldsetning þess er mjög mikil og hátt hlutfall af heildarfjármunum félagsins eru lán frá tengdum aðilum. Í raun má segja að málið snúist um félagasamstæður, þ.e. móður- og dótturfélög. Ef fjármögnun dótturfélaga kemur frá móðurfélagi, sem er staðsett erlendis og í ríki sem ber lægra skatthlutfall en Ísland, hvetja íslenskar skattareglur sem og skattareglur ýmissa annarra þjóða fremur til fjármögnunar með lánum en hlutafé þar sem vaxtagreiðslur vegna lána eru frádráttarbærar frá tekjuskattsstofni en arðgreiðslur eru það ekki. Ef móðurfélagið vill geta tekið sem mestan hluta af hagnaði dótturfélags til sín er núna hagkvæmara að móðurfélagið láni dótturfélaginu háar fjárhæðir sem síðan eru greiddar til baka með háum vöxtum sem fela þá í raun í sér greiðslu á hagnaði dótturfélagsins, sem alla jafna væri greiddur út sem arður til eigenda félagsins til móðurfélagsins, í formi vaxtagreiðslna.

Þetta er ekki vandamál þegar öll félög innan samstæðunnar eru innlend þar sem fjárhæð til frádráttar í einu félagi kemur þá til skattlagningar í öðru. Vandamálið er aðeins þegar móðurfélagið er staðsett þar sem skattareglur eru hagstæðari en í því ríki þar sem dótturfélagið starfrækir starfsemi sína. Þetta gerir alþjóðlegum félagasamstæðum auðveldara með að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum sem minni fyrirtæki hins vegar greiða og eiga ekki kost á að komast hjá með þessum hætti.

Þessi háttsemi skekkir því samkeppnisstöðu fyrirtækjanna auk þess sem hún rýrir skattstofna ríkisins og við vitum auðvitað öll að ríkissjóð munar um allan löglega álagðan og innheimtan skatt og mikilvægt er líka að koma í veg fyrir skattsniðgöngu til framtíðar.

Reglur um þunna eiginfjármögnun eiga aðeins við tengda aðila. Ljóst er að mikil skuldsetning félags, eins og átt er við þegar um þunna eiginfjármögnun tengdra aðila er að ræða, á sér ekki stað í viðskiptum milli ótengdra aðila. Vísir að sams konar reglum og lagðar eru til í þessu frumvarpi með milliverðlagsákvæði er í lögum um skattlagningu kolvetnisvinnslu, nr. 109/2011, en í 10. mgr. 10. gr. þeirra laga kemur fram að eigi sé heimilt að draga frá tekjum ársins hærri fjármagnskostnað en sem nemur 5% af stöðu skulda að frádregnum peningalegum eignum, þar með töldum kröfum og birgðum í lok viðkomandi reikningsárs. Lögin ná aðallega til alþjóðlegra félagasamstæða sem stunda kolvetnisvinnslu en þau geta með sölu afurða til félaga innan samstæðunnar eða kaupum á þjónustu flutt til hagnað innan samstæðunnar og haft þannig áhrif á hvar skattlagning fer fram. Með ákvæðinu er þá tryggt að skattlagning sé sem næst raunhagnaði vinnsluaðila.

Þetta frumvarp hefur í rauninni nákvæmlega sama tilgang, þ.e. að skattlagning þeirra aðila sem falla undir frumvarpið sé í réttu samhengi við raunhagnað þeirra. Það er ljóst að reglur um þunna eiginfjármögnun taka aðeins til fárra fyrirtækja á Íslandi, einkum eins og ég sagði hér áðan til stórra alþjóðlegra félagasamstæðna. Þótt fáar slíkar séu starfandi hér á landi eru þær sem þó eru starfandi gríðarlega stórar og starfsemi þeirra veltir miklum fjármunum og skilar töluverðum hagnaði. Við þekkjum þetta til að mynda frá álframleiðslufyrirtækjunum. Því er um verulegt hagsmunamál að ræða fyrir íslenska ríkið. Enn fremur hefur lögfesting reglna um þunna eiginfjármögnun fyrirbyggjandi áhrif í því skyni að koma í veg fyrir hugsanleg skattundanskot í framtíðinni.

Eins og ég nefndi hér áðan byggir þetta frumvarp á skýrslu starfshóps frá júní 2012. Þar sátu fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífs. Þeir bentu á að annaðhvort yrði að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun eða endurskoða hina svokölluðu armslengdarreglu, enn fremur þyrfti að skilgreina samstæðuhugtakið til þess að hægt væri að lögfesta reglur um þunna eiginfjármögnun þannig að ljóst væri til hvaða aðila reglurnar næðu og endurskoða vaxtarskilgreininguna. Vísað er til þýskrar fyrirmyndar í þeim efnum. Í þessu frumvarpi er sem sagt vinna hópsins lögð til grundvallar. Þrátt fyrir þessar tillögur og þrátt fyrir að þetta mál sé ofarlega á dagskrá víða í Evrópu og innan alþjóðasamfélagsins er ekkert sambærilegt frumvarp á þingmálaskrá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Í því ljósi vonast ég til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta mál til ítarlegrar skoðunar og ég vonast að sjálfsögðu líka til að hv. nefnd afgreiði málið frá sér því að þetta er verulegt hagsmunamál fyrir ríkissjóð og tryggir líka jafnræði ólíkra fyrirtækja þegar kemur að skattheimtu.

Ég legg til að lokinni þessari umræðu að málinu verði vísað til hv. efnahagsnefndar.