143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

brottnám líffæra.

34. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég held að það skýri enn þá betur það frumvarp sem nú liggur fyrir. Ég byrja á að svara spurningunni.

Já, ég þekki álit hv. þingmanns, hugmyndina um að merkja við þetta í skattframtali. Ég var meira að segja með það í drögum að frumvarpinu. Í 1. gr. núverandi frumvarps stendur: „… eða skrá á annan hátt sem tryggt þykir að muni koma fram við andlát hans.“ En í drögunum var hugmyndin að það væri reitur t.d. í skattframtali þar sem maður gæti hakað við ef maður vildi ekki gefa.

Ég ákvað að vera ekki svo smámunasöm í frumvarpinu, málið mun fara fyrir nefndina. Þá mun þessi útfærsla kannski verða rædd betur og hvernig best sé að koma þessum upplýsingum á framfæri.

Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal, samfélagið á ekki líkama okkar, en eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan er það þannig t.d. í Belgíu og Austurríki. Það frumvarp sem ég mæli nú fyrir gengur ekki svo langt. Ef maður vill ekki gefa líffæri þá kemur maður því á framfæri, t.d. í skattframtalinu sínu eða á annan hátt og ef aðstandendur neita gildir sú neitun.