143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

stuðningur við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara.

88. mál
[17:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka 1. flm. hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir frumkvæðið að því að flytja þessa tillögu. Það var sömuleiðis mjög ánægjulegt að vera á stofnfundi samtaka vinafélags eða stuðningsfélags Íslands og Vestur-Sahara nú í vikunni. Það er meira en tímabært og ánægjulegt að taka þetta mál sérstaklega upp hér og í anda þess sem oft hefur verið gert áður að Ísland láti rödd sína heyrast í sambandi við sjálfstæðisbaráttu og sjálfsákvörðunarrétt ekki síst smærri þjóða.

Í raun er ákaflega dapurlegt að horfa upp á það hversu lengi þetta mál hefur legið óleyst og óbætt hjá garði, ef svo má að orði komast. Það er mikill blettur á alþjóðasamfélaginu. Ekki síst er það alvarlegt að Sameinuðu þjóðirnar grípi ekki inn í. Þær hafa skýra afstöðu í þessu máli og ítrekaðar ályktanir á bak við sig sem eiga sér rætur allt aftur til þess þegar Afríka var að komast af nýlendustiginu. Eins og kunnugt er voru þar þrjú sjálfstæð ríki í lok seinna stríðs, en álfan er nú öll orðin sjálfstæð með þessari einu undantekningu og hið viðamikla starf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með nýlendustofnuninni og nefndinni og öllu þessu sem margir eru stoltir af, er verulegur blettur á þeirri arfleifð að málefni Vestur-Sahara hafa orðið bitbein hagsmunatogstreitu og stórvelda sem náð hafa að hindra alla framþróun í málinu áratugum saman.

Ég minnist þess þegar ég var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1997, hygg ég að það hafi verið, og setti mig inn í nefndir þar sem verið var að fjalla um málefni Vestur-Sahara. Síðan þá hefur eiginlega ekkert gerst. Það eru mikil svik við þessa íbúa, sérstaklega við vopnahléssamningana þegar vopnahlé var gert og Pólisaríó lagði niður vopn í von um að staðið yrði við fyrirheitið og loforðið um að þjóðin fengi þá að kjósa um eigin örlög. En síðan tókst ósvífnum aðilum, Marokkó og tilteknum evrópskum stuðningsaðilum með þeim, að koma í veg fyrir að ályktunin næði fram að ganga. Er það þó þannig að í þessu tilviki eru engin óleyst lagaleg vandamál eða ágreiningsefni sem sums staðar annars staðar tefja fyrir því að botn sé fenginn í svona mál, þökk sé því að bæði Marokkó og Máritanía gerðu kröfur á landsvæðið sem er innan landamæra Vestur-Sahara og Alþjóðadómstóllinn í Haag vísaði þeim kröfum frá.

Landamærin eru því óumdeild. Skilgreiningin á Sahrawi-fólkinu sem þjóð liggur fyrir og samkvæmt þjóðarréttinum eru öll skilyrði uppfyllt til sjálfsákvörðunarréttar þessarar þjóðar. Það er afmarkað landsvæði, það er tungumál, það er menning og ekki er deilt um hverjir bjuggu á þessu svæði fram að hernáminu. En engu að síður stendur málið svona. Ég held að Ísland gæti lagt margt af mörkum þarna og það hefur nú stundum gengið eftir að málefni þjóða, sem Ísland hefur af einhverjum ástæðum tekið upp á arma sína eða farið að sinna, hafi leyst farsællega. Við skulum því vona að sú saga endurtaki sig, án þess að ég sé að reyna að halda því fram að Ísland muni með afli sínu ríða baggamuninn hér. En kannski mun sagan endurtaka sig og það reynist Vestur-Sahara mönnum gæfuríkt í sögulegu samhengi að Ísland taki sérstaklega baráttuna fyrir málefnum þeirra upp á sína arma.

Ein af auðlindum landsins ættu auðvitað að vera fiskimiðin úti fyrir langri strandlengju Vestur-Sahara. Þau eru auðug eða voru það að minnsta kosti áður en þau voru ofnýtt. Það er alveg ástæða til að ætla að þessi þjóð gæti búið sér bærileg lífskjör, að minnsta kosti miðað við það sem gerist og gengur á þessu svæði, ef hún fengi að njóta auðlinda sinna sjálf. Það gerir hún ekki. Þar gætu Íslendingar að sjálfsögðu lagt sitt af mörkum ef Vestur-Sahara yrði sjálfstætt land, við gætum eftir atvikum stutt við bakið á þeim með þekkingu okkar á sviði sjávarútvegsmála þegar þar að kæmi, sem vonandi verður fyrr en seinna. En það þarf svo sem ekkert að fjölyrða og orðlengja um þetta mál. Ég bind bara vonir við að það takist að afgreiða það í sem víðtækastri samstöðu stefnumótun að þessu leyti. Það yrði auðvitað ákveðin stefnumarkandi yfirlýsing ef Alþingi samþykkti hluti af þessu tagi. Því má svo fylgja eftir með ýmsum hætti, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi hér.

Það getur vel verið að rétt sé að undirbúa það síðan með hvaða hætti hægt er að beita sér á alþjóðavettvangi í þessu efni. Í sjálfu sér er sennilega ekkert upp á stöðuna að klaga hvað það snertir að við viðurkennum að sjálfsögðu ekki yfirráð Marokkó yfir svæðinu og erum í þeim hópi sem aldrei hefur samþykkt það og munum ekki gera. En það þarf meira til og það gæti þurft að láta tiltekna evrópska aðila einnig finna fyrir því að menn vita alveg af því hverjir það eru sem þvælt hafa þetta mál á alþjóðavettvangi og komið í veg fyrir að það nái fram að ganga. Það er eiginlega ótrúlegt að tvö eða þrjú ríki skuli geta bundið hendur alls alþjóðasamfélagsins og komið í veg fyrir það árum og áratugum saman að skýrar ályktanir Sameinuðu þjóðanna og loforð sem þessu fólki hafa verið gefin séu efnd. Það er eiginlega alveg yfirgengilegt, en þannig er staðan í þessu máli.