143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:30]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við ræðum þessa tillögu í dag því að mikilvægt er að taka á því grafalvarlega máli sem hér er til umræðu.

Þetta vandamál hefur verið þekkt um svolítinn tíma en aldrei verið tekið neitt á því. Þegar slíkt vandamál kom upp fyrir austan voru góð ráð dýr því að enginn farvegur var til. Á endanum má þakka fyrir það að þeir aðilar sem komu að byggingu þeirra húsa náðu samkomulagi, örugglega tímamótasamkomulagi um hvernig aðilar geta sameinast án þess að leggja mikil dómsmál og vesen á íbúana. Því ber að fagna.

Vanþekking fólks á þessum málum og hversu lítið þau hafa verið í umræðunni getur valdið miklu tjóni. Þess vegna er mjög mikilvægt að við hefjum þessa umræðu og reynum að koma henni í þann farveg að koma þessum málum í fastar skorður, vegna þess að þetta tjón nær náttúrlega bæði til heilsutjóns eins og hér hefur verið rakið, þetta er klárlega heilbrigðismál, og svo til fjárhagslegs tjóns. Hið fjárhagslega tjón getur líka haft áhrif á heilsu fólks, það setur það algjörlega í uppnám. Því erum við að sýna mikla ábyrgð með því að setja þessa vinnu af stað og ég hlakka mikið til að taka þátt í henni. Fólk er algjörlega berskjaldað þegar svona lagað kemur upp, ég tala nú ekki um það sálræna ástand sem getur skapast þegar heimili verða sýkt af myglu þannig að fólk getur ekki búið þar. Það tekur sálrænt á fólk.

Það sem við gerum í þessu er að við erum að fara af stað með forvarnir. Við erum að útbúa hvernig við komum í veg fyrir að þetta vandamál stækki, það er því miður komið af stað, og nú þurfum við að leggja áherslu á forvarnir þannig að við komum í veg fyrir vandann. Og síðan að til verði eitthvert ferli sem fer af stað þegar slíkt mál kemur upp þannig að fólk verði ekki jafn berskjaldað og óöruggt og standi ekki frammi fyrir að missa heimili sitt án þess að fá það nokkuð bætt.

Ég hlakka því til að fá málið í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég á sæti og mun ég vinna því framgang þar eins og ég get. Nákvæmleg útfærsla mun verða rædd þar og munum við þá hafa samræður við hæstv. forsætisráðherra um hugmyndir hans í því, eins og hann hefur talað og hæstv. ríkisstjórn. Ég veit ekki hvort Össur Skarphéðinsson vilji verða sjóðstjóri yfir þeim sjóði.

Ég veit að vinna fór af stað hjá fyrrverandi ríkisstjórn í forsætisráðuneytinu að skoða þessi hamfaramál og hvernig sé best að taka á þeim. Ég veit ekki til þess að þeirri vinnu sé lokið en mikil vinna hefur farið fram þar með Almannavörnum og fleirum og það er um að gera að bæta þessu bara inn í þá vinnu, þ.e. hvort þetta eigi heima í því ferli og kannski ekki ástæða til að búa til sérsjóð fyrir þetta endilega. En við þurfum að taka heildstætt á málunum, ekki að dreifa þeim víða. Ég held að þetta sé mál sem við getum öll sameinast um.