143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

18. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hérna fyrir tillögu til þingsályktunar um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Flutningsmenn tillögunnar eru, ásamt mér, hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Bjarkey Gunnarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ögmundur Jónasson. Tillagan hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd er kanni hvort og þá með hvaða hætti megi aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættuna af rekstri banka og áföllum í starfsemi þeirra fyrir þjóðarbúið. Nefndin skoði stefnumótun nágrannaríkja í þessu sambandi og skili tillögum sínum fyrir 1. október 2014.“

Það er rétt að taka það fram að þingsályktunartillaga þessi kemur nú fyrir Alþingi í rauninni í fjórða sinn því að hún var fyrst flutt á 140. þingi og síðan á hverju þingi síðan og á þinginu sl. vor kom fram góður stuðningur við tillöguna í efnahags- og viðskiptanefnd. Hún var afgreidd frá nefndinni með orðalagsbreytingu. Ég hef að þessu sinni tekið tillit til þeirrar orðalagsbreytingar í tillögunni sem efnahags- og viðskiptanefnd lagði til í vor. En ég tel hins vegar að þörf samfélagsins fyrir að láta kanna það mál sem þingsályktunartillagan fjallar um sé enn hin sama og þess vegna finnst mér mikilvægt að endurflytja hana, enda fékk tillagan, eins og ég segi, ágætar viðtökur í efnahags- og viðskiptanefnd í vor þó að ekki hafi tekist að ljúka málinu fyrir kosningar.

Bankastarfsemin sem hér um ræðir, annars vegar rekstur fjárfestingarbanka og hins vegar starfsemi almennra viðskiptabanka, er að mörgu leyti gjörólík þannig að mikið álitamál er hvort þessi rekstur geti átt farsæla samleið í einu og sama fyrirtækinu ef mat á því fer fram á forsendum almannahagsmuna eingöngu en ekki sérhagsmuna þeirra sem eiga og starfrækja fjármálafyrirtækin.

Almenn viðskiptabankastarfsemi byggist á inn- og útlánum og því sem kalla má hefðbundna fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki og nýtur sem slík sérstakrar verndar hins opinbera sem baktryggir þessa starfsemi að ákveðnu marki með innlánavernd. Fjárfestingarbankar fást hins vegar við fjármögnun ýmiss konar fjárfestinga; viðskipti með verðbréf, hlutabréf, ráðgjafarstarfsemi og eignastýringu og rekstur þeirra er að jafnaði til muna áhættusæknari og áhættusamari en starfsemi hinna almennu viðskiptabanka. Með því að blanda saman almennri bankastarfsemi og hinum áhættusækna fjárfestingarbankarekstri skapast hætta á að tjón vegna fjárfestinga sem farið hafa í súginn lendi á almenningi í stað þess að það hafni allt og óskipt hjá þeim sem gerðu hinar áhættusömu ráðstafanir.

Það er til að draga úr líkunum á slíkum óförum almennings af völdum áhættusækinna og stundum dómgreindarlausra aðila sem þessi þingsályktunartillaga er flutt.

Allt síðan efnahagshrunið gekk yfir víða um lönd haustið 2008 hefur verið til umræðu hvort aðskilja skuli almenna bankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi til fulls. Er þá gjarnan rifjað upp að meðal viðbragðanna í Bandaríkjunum við efnahagskreppunni sem leiddi af fjármálahruninu árið 1929 var einmitt bann við samþættingu almennra viðskiptabanka og fjárfestingarbanka, svokölluð Glass-Steagall löggjöf. Þetta bann var í gildi fram til síðustu aldamóta en var þá afnumið. Raunar er það svo að sú ráðstöfun er, a.m.k. af sumum, talin vera helsta orsök þess að sú efnahagsbóla myndaðist sem sprakk svo eftirminnilega haustið 2008. Um það má áreiðanlega deila.

Starfsemi fjárfestingarbanka er ekki umfangsmikil hér á landi sem stendur en miklu skiptir þó að um hana gildi skýrar reglur og þær reglur séu með þeim hætti að starfsemin feli ekki í sér ógn fyrir fjármálakerfi landsins í heild. Þó er rétt að geta þess að samkvæmt frétt í Ríkisútvarpinu 20. ágúst sl. er gert ráð fyrir að eignir fjárfestingarsjóða verði um 110 milljarðar króna í árslok á þessu ári og hafa þær þá fimmfaldast á fimm árum. Árið 2007, fyrir hrun voru eignir fjárfestingarsjóða hins vegar um 538 milljarðar króna en hrundu við fall bankanna niður í um 20 milljarða á árinu 2009.

Eins og ég segi er starfsemi fjárfestingarbanka ekki umfangsmikil hér á landi sem stendur eins og þær tölur sem ég gat um bera með sér en mikilvægt er að skýrar reglur gildi um þessa starfsemi. Sömuleiðis er mikilvægt að tryggt sé að starfsemin feli ekki í sér ógn fyrir fjármálakerfi landsins í heild sinni og geti þannig orðið til þess að óréttmætar fjármálabyrðar lendi á almenningi.

Það er vitað mál að nokkur ágreiningur er um það meðal þeirra aðila sem fást við fjármál og bankastarfsemi hér á landi hvort rétt sé að aðgreina starfsemi fjárfestingarbanka og almenna viðskiptabanka að fullu. Þess er þó vert að minnast að í skýrslu sérfræðinganefndar Evrópusambandsins um framtíðarskipan fjármálakerfis Evrópu, sem skilaði niðurstöðum sínum haustið 2012, var lagður til aðskilnaður hefðbundinnar bankastarfsemi og starfsemi fjárfestingarbanka með þeim hætti að síðarnefnda starfsemin verði ávallt á vegum sérstaks lögaðila eða félags sem getur verið innan sömu samsteypu engu að síður. Þessar tillögur eru um margt líkar þeim tillögum eða reglum sem gilt hafa í Bandaríkjunum undanfarin ár og kenndar eru við Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, og takmarka heimildir fjármálafyrirtækja til áhættusamrar starfsemi með ýmsu móti.

Þróun á Vesturlöndum eftir efnahagshrunið haustið 2008 hefur gengið í þá átt að þróa haldbærar leiðir til þess að draga úr kerfisbundinni fjármálaáhættu með því að finna leiðir sem hindra eða milda verstu afleiðingar óskynsamlegs athæfis í fjármálum og hagar svo til að þegar miður fer lendi afleiðingar fyrst og fremst á þeim sem stofnuðu til áhættunnar en ekki á öðrum. Meðal þess sem gert hefur verið er að reisa múra milli almennrar bankastarfsemi og starfsemi fjárfestingarbanka. Mikilvægt er fyrir Íslendinga að fylgjast grannt með framvindunni á þessum vettvangi og móta reglur í þessa veru sem ekki gefa erlendu regluverki eftir á neinn hátt.

Virðulegur forseti. Hér er lagt til að á þessu stigi verði fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa nefnd sem kanni hvort og þá með hvaða hætti megi skilja að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka þar sem meginmarkmið á að sjálfsögðu að vera að lágmarka áhættuna af rekstri banka og áföllum í starfsemi þeirra fyrir þjóðarbúið í heild. Ég hygg að það geti verið nokkuð góð samstaða um það en menn getur að sjálfsögðu greint á um hvaða leiðir á að fara, hvort það eigi að gera með fullkomnum aðskilnaði þessara tegunda bankastarfsemi eða hvort það eigi að gera með einhverjum öðrum hætti. Það er þá opið fyrir það miðað við það orðalag sem tillagan gerir ráð fyrir.

Virðulegur forseti. Ég vonast til þess að tekist geti sambærileg samstaða um málið og varð á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar síðastliðið vor. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og síðari umræðu.