143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

18. mál
[18:11]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum fyrir að þessi tillaga skuli vera komin fram. Ég ætla í umræðunni að benda á nokkur atriði þar sem mér finnst gæta nokkurs misskilnings. Þar er kannski fyrst og fremst að í allri umfjöllun um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka er gjarnan ruglað saman fjárfestingarbankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Það er alveg ljóst að í lögum um fjármálafyrirtæki sem tóku gildi árið 2002, lög nr. 161/2002, voru lagðar hömlur við því að fjármálafyrirtæki stunduðu fjárfestingarstarfsemi, þ.e. bönkum og fyrirtæki er gefin heimild til þess að stunda ákveðna starfsemi sem er talin upp í 14 töluliðum, ef ég man rétt og nokkrum stafliðum þar inni á milli og síðan kemur þar á eftir heimild til að yfirtaka eignir, þ.e. fullnustueignir, fyrirtæki til fullnustukröfu.

Þessi heimild var notuð nokkuð frjálslega og með fullu samþykki Fjármálaeftirlitsins á þeim tíma þannig að ekki var um fjárfestingarbankastarfsemi að ræða heldur hreinlega fjárfestingarstarfsemi. Bankar töldu eðlilegt að þeir tækju á sig rekstraráhættu viðskiptavina sinna með því að fjárfesta í slíkri starfsemi. Með fullkomnum aðskilnaði fjármálastarfsemi og annarrar starfsemi — sem við getum kallað almennan iðnað eða almennan atvinnurekstur sem var og er ætlast til með núverandi löggjöf, það var aðeins hert á þessu árið 2011 ef ég man rétt — vil ég því meina að hér sé gengið dálítið langt með því að fullyrða að það sem gerðist hafi stafað af því að bankarnir hafi verið í fjárfestingarstarfsemi innan um viðskiptabankastarfsemi sína. Þessi lína — fjárfestingarbankastarfsemi, viðskiptabankastarfsemi — er ekki bein, hún er dálítið flókin.

Það var hins vegar þannig og það hefur komið í ljós, eins og ég sagði áðan, að bankarnir stunduðu alveg skýlausa fjárfestingarstarfsemi. Einstakir starfsmenn bankans ráku einkavogunarsjóð fyrir sjálfa sig innan bankanna. Bankarnir stunduðu markaðsmisnotkun með því að verja verð á eigin hlutabréfum og vísa ég þar til dómsmáls ef um það verður spurt. Mér finnst stundum þegar ég les þessa tillögu í gegn að verið sé að blanda saman tveimur hlutum, fjárfestingarstarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Það er alveg klárt að ekki er heimild til fjárfestingarstarfsemi. Ég get hins vegar tekið undir það eftir það sem hefur gengið á hér á undanförnum tíu árum skulum við segja, frá árinu 2003, að Ísland getur varla hafnað því að þetta mál sé skoðað. Þegar ekki ómerkari menn en Paul Volcker, Vickers lávarður og Finninn Erkki Liikanen hafa skoðað þetta hver á sínu svæði held ég að ágætt sé að líta í eigin rann.

Við megum ekki fara svo bratt á milli kantanna í þessu landi að allt sem við leyfðum áður og var látið afskiptalaust, eigi að fara að banna allflesta hluti þótt þeir séu í fullkomlega eðlilegu samhengi við eðlilega fjármálastarfsemi. En hins vegar, og ég get tekið undir það, þegar glæpsamlegt innræti er komið inn í fjármálastarfsemi er erfitt að taka þar á. Ég get að mörgu leyti tekið undir að þetta sé skoðað en er ekki jafn bjartsýnn og flutningsmenn að þetta leysi allan vanda. Ég hef lokið máli mínu að sinni.