143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

sæstrengur til Bretlands.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér skilst reyndar að þær fréttir sem hv. þingmaður vísar í hafi verið bornar til baka, þ.e. að forsetinn hafi ekki sagt það sem vitnað var í og ekki beitt sér á þann hátt sem hv. þingmaður nefndi.

Ég get hins vegar svarað spurningunni almennt varðandi sæstrengsumræðuna. Forseti Íslands hefur auðvitað komið að umræðu um þau mál, ekki hvað síst í gegnum þá miklu umræðu sem hefur orðið um norðurslóðamál á Íslandi á undanförnum missirum og er ekkert óeðlilegt við að forsetinn tjái sig um slík mál.

Hvað varðar spurninguna um sæstreng og þá skýrslu sem hv. þingmaður nefndi stendur að sjálfsögðu til að halda áfram því samráði sem lagt hefur verið upp með við úrvinnslu þeirra mála. Þar þarf ekki hvað síst að líta til þess hver áhrifin yrðu á lagningu sæstrengs hér innan lands, t.d. áhrif á verð til neytenda á Íslandi og áhrif á möguleika okkar á að skapa störf innan lands. Það er ekki nóg að líta bara á tekjuhliðina, hversu miklar tekjur eða hversu mikill hagnaður gæti fengist á pappírnum af slíkum sæstreng. Við þurfum líka að líta til áhrifa innan lands og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sammála mér um það.

Það er hins vegar alveg ljóst að það er mjög mikill áhugi á þessum hugmyndum, ekki síst í Bretlandi. Það fór ekki á milli mála á fundum með breskum ráðamönnum fyrir fáeinum vikum. Þeir eru mjög áhugasamir um þetta og þar af leiðandi líklegt að forseti Íslands hafi einnig verið spurður út í það, ekki bara af þeim stjórnmálamönnum sem hann kann hafa hitt heldur líka af fjölmiðlamönnum. Það er reynslan, a.m.k. í Bretlandi, að þar er talsverð umræða um þetta. Að sjálfsögðu munum við fara yfir þetta hér í þinginu og meta út frá hagsmunum Íslands.