143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

samning stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna.

67. mál
[11:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil líka þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að bjóða okkur að taka þátt í þessari þingsályktunartillögu. Mig langar að byrja á því að vitna í orð fyrsta forseta Bandaríkjanna sem benti svo réttilega á að ríkisvaldið væri hættulegur þjónn og hræðilegur herra. Þá er spurningin hvernig við komum böndum á þennan hættulega þjón, hvernig við komum því þannig fyrir að hann geti ekki orðið hræðilegur herra. Þetta er eitt skref í þá áttina. Þetta er skref í þá átt að sami aðili hafi ekki bæði valdið til að semja leikreglurnar og framfylgja þeim, að semja lögin og framfylgja lögunum, tryggja að þeim sé fylgt sem þegar öllu er á botninn hvolft byggir að endingu á ofbeldi, lögum er að endingu alltaf framfylgt með ofbeldi.

Hvernig gerum við það? Þetta er ein leið: Að taka hluta af ákvarðanatökunni um hverjar leikreglurnar eiga að vera, þann hluta ákvarðanatökunnar um það hvernig við byrjum að móta hugmyndina áður en hún er lögð fram, að hann sé hjá Alþingi, hjá þingmönnum. Þeir móta hugmyndina fyrst saman, leggja hana svo fram, ræða hana í nefndum og hér á þingi þar sem erfiðara er að breyta hlutunum í staðinn fyrir að framkvæmdarvaldið, ráðherrar og náttúrlega ráðuneytin þeirra, semji leikreglurnar sem það á síðan framfylgja, leggi þær fram á þingi. Þegar lagafrumvörp eru komin inn á þing vitum við, og við nýju þingmennirnir höfum séð það mjög glöggt núna, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti, að mjög erfitt er að breyta þeim, eftir að þau eru komin inn á þing. Frumvörpin eru að mestu leyti ákveðin og niðurstaða þeirra er ákveðin af þeim sem undirbúa frumvörpin áður en þau eru lögð fram. Það er það einkennilega í þessu öllu saman.

Ef við höfum hug á því að dreifa valdinu, að minnka vald, að binda þetta hræðilega húsbóndavald sem ríkisvaldið er ef það fær að vera húsbóndinn og gera ríkisvaldið að meiri þjóni sem gagnast samfélaginu þá samþykkjum við þessa þingsályktun.