143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, sameignarfélög og fyrirtækjaskrá.

132. mál
[11:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa haldið áfram þessari vinnu og komið með þessa breytingu í frumvarpsformi inn í þingið. Ég held að þó að málið sé út af fyrir sig ekki stórt horfi það til framfara og einföldunar á sviði sem skiptir auðvitað miklu máli, þ.e. nýskráningu fyrirtækja.

Það kemur fram í máli ráðherra að þessu muni fylgja þörf fyrir stöðugildi í fyrirtækjaskránni og ég vildi inna ráðherrann eftir því hvort fyrir því hafi verið séð í því fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram að þeir fjármunir séu tryggðir í samræmi við ákvæði þessa frumvarps eða hvort ráðherrann hafi gert aðrar ráðstafanir til þess að tryggja þá fjármuni verði málið að lögum núna á haustþinginu. Hitt væri auðvitað ómögulegt ef frumvarpið yrði að lögum en fjármunirnir sem fylgdu verkefnunum kæmu ekki til skráningar.