143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu kynningu. Ég ætla að taka til máls varðandi það frumvarp sem er til umræðu. Ég hef verið meðflutningsmaður með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, sem hefur haft frumkvæði að flutningi þessa máls í nokkur skipti, og get þess vegna upplýst það að ég er stuðningsmaður fyrirkomulagsins sem frumvarpið mælir fyrir um að verði tekið upp. Í raun og veru er ég þeirrar skoðunar að eðlilegast væri að ákvæðið um að þingmaður sem gegnir ráðherraembætti sitji ekki á þingi nema samkvæmt embættisstöðu sinni sem ráðherra væri bundið í stjórnarskrá. Það hafa verið flutt frumvörp um það eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi, en þau ekki hlotið afgreiðslu. Það er jafnframt rétt sem kom fram í máli hennar að það er viðurhlutameira að breyta stjórnarskrá og má segja að sú aðferð sem hér er lögð til, að þetta verði bundið í þingskapalög sem heimild, sé ákveðin millileið. Það gæti þá verið hverjum ráðherra í sjálfsvald sett eða eftir atvikum hverjum stjórnmálaflokki að taka grundvallarákvarðanir fyrir sig í þessu efni eða einstaka ríkisstjórnir.

Ég tel að mikilvægustu rökin sem mæla með þessu fyrirkomulagi séu þau sem er að finna í greinargerð með frumvarpinu um skýrari aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Þrískipting ríkisvaldsins er auðvitað mjög mikilvægur hornsteinn í okkar stjórnskipun og dómsvaldið er, eins og kunnugt er, alveg sér á báti í því efni en löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið nokkuð samtvinnað í sölum Alþingis.

Við þekkjum að það eru dæmi um þetta frá nágrannalöndunum. Kannski er handhægast að nefna Noreg í því sambandi þar sem það er almenna reglan. Reyndar er það bundið í norsku stjórnarskrána að það megi skipa sérhvern norskan borgara ráðherra að undanskildum þingmönnum, það segir í norsku stjórnarskránni. Þegar þingmenn taka að sér ráðherraembætti eða eru skipaðir ráðherrar gerist það því sjálfkrafa að þeir víkja sæti og varamenn þeirra gegna þingmennsku. Þannig er líka tryggt að það er alltaf þingmannafjöldinn að fullu sem er virkir þingmenn í þingstörfunum sjálfum, þar með talið í nefndastörfum. Hér gerist það iðulega að 8, 10 eða 12 þingmenn úr stjórnarflokkunum eru dregnir út úr þingstörfunum og sendir inn í ráðuneyti og sú vinna sem þarf að inna af hendi í þinginu, m.a. við yfirferð lagafrumvarpa, getur liðið fyrir það vegna vinnuálags þeirra sem eftir sitja í þinginu. Það eru dæmi um þetta og margir þekkja það af reynslunni.

Ég tel því að þetta séu meginrökin, grundvallarsjónarmiðin um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, sem hér eiga við. Vitaskuld er það líka þannig og í umræðum um þetta mál áður hafa komið fram önnur sjónarmið eins og þau að þetta fyrirkomulag styrki sérstaklega ríkisstjórn á hverjum tíma vegna þess að það fjölgi röddum ríkisstjórnarflokkanna inni í þinginu sem nemur fjölda ráðherra, og þar með megi draga þá ályktun að svigrúm stjórnarandstöðunnar verði þeim mun minna. Það er viðhorf sem vissulega á að gefa gaum að mínu viti.

Ég held hins vegar eins og segir hér í greinargerð, með leyfi forseta:

„Eftir sem áður mun ráðherra sitja á þingi í krafti embættisstöðu sinnar skv. 51. gr. stjórnarskrárinnar. Nýti hann sér þennan möguleika yrði honum heimilt að taka þátt í umræðum á Alþingi en ætti ekki atkvæðisrétt.“

Ég held að það sem mundi gerast væri svipað og í Noregi þar sem ráðherrar taka almennt ekki þátt í umræðu um mál nema þau heyri undir þá, annaðhvort mál sem þeir flytja eða mál á því málasviði sem heyrir undir þá. Að öðrum kosti blanda þeir sér ekki mikið í umræðuna í þingsal enda eru þeir í raun og veru ekki þingmenn. Það er því embættisstaða þeirra sem ráðherra sem gerir það að verkum að þeir sitja þingfundi og eðli málsins samkvæmt blanda þeir sér í umræðu um þau mál en þeir hafa ekki atkvæðisrétt. Frá mínum bæjardyrum séð er ofsagt að þetta fyrirkomulag muni fyrst og fremst styrkja stöðu stjórnarinnar og draga úr stöðu stjórnarandstöðunnar, en það þyrfti engu að síður við meðferð málsins í nefnd, að mínu viti, að fara í gegnum þá umræðu og huga að því hvort það séu einhver atriði sem þyrfti að gera breytingar á í þingskapalögunum til að vega upp á móti ef menn komast að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið mundi veikja stöðu stjórnarandstöðunnar, sem ég er ekki viss um.

Eins og hv. þingmaður gat um fékkst þetta mál ekki á dagskrá síðast en hefur áður fengið umfjöllun í nefnd og hefur verið skilað nefndaráliti um það ef ég man rétt. Ég hygg því að enda þótt nýir þingmenn séu komnir til starfa hér, að talsverðu leyti alla vega, liggi fyrir töluverð vinna í fyrri nefnd um málið og nefndarálit, sjónarmið og væntanlega umsagnir og annað. Auðvitað er þó eðlilegt að málið fái hefðbundna þinglega meðferð, fari til umsagnar og fái umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Virðulegur forseti. Þetta voru nokkur sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri í umræðunni. Ég ítreka að ég er meðflutningsmaður á þessu máli og styð það.