143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er um mig líkt og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson að ég hef nokkrum sinnum verið meðflutningsmaður hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur á þessu máli. Ég vildi nota tækifærið og þakka henni frumkvæðið í því. Því miður er, eins og þingmaðurinn nefnir, heldur að draga úr vilja til endurbóta, úrbóta og breytinga frá því sem var fyrst eftir hrunið haustið 2008. Það breytir því ekki að við þurfum nú og á næstu árum að draga margvíslega lærdóma af reynslu okkar og gera margvíslegar úrbætur.

Það mál sem hér er til umræðu varðar það sem kannski átti hvað stærstan þátt í því hve illa fór fyrir okkur, þ.e. skort á aðskilnaði á milli valdþátta, m.a. til að styrkja sjálfstæði þeirra og afl til eftirlits. Í þessu formi, þar sem ekki er um að ræða stjórnarskrárbreytingu eða skyldu, ætti það að vera nokkuð útlátalítið, fyrir utan þann óverulega kostnað sem þessu fyrirkomulagi mundi fylgja, að opna þessa heimild. Hér er um að ræða heimild og fyrst og fremst er verið að gefa stjórnmálaflokkunum í þinginu möguleika á því að skipa málum með þessum hætti. Þar sem það er rík sannfæring margra í þinginu að best fari á því að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn um leið og þeir gegni því embætti ætti að vera hægt að sameinast um það mál í umfjöllun nefndarinnar og við afgreiðslu þingsins, þ.e. að þeim sem þetta kjósa sé gert það mögulegt, að það sé ekki gert með þeirri viðurhlutamiklu breytingu sem stjórnarskrárbreyting væri.

Ég vonast þess vegna eftir því að málið fái jákvæðar undirtektir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, verði afgreitt með nefndaráliti hingað inn í þingsalinn og að þingmönnum gefist tækifæri til að taka afstöðu til þess hvort fjölga eigi möguleikunum hér og skapa tækifæri til meiri og skýrari aðskilnaðar á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds.