143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Með sömu hundalógík og hv. þingmaður heldur fram hér væri væntanlega hægt að auka tekjur ríkisins út í hið óendanlega með því að hækka skatta endalaust. En það var reyndar líka sú stefna sem síðasta ríkisstjórn fylgdi með þeim árangri sem við sáum á síðasta kjörtímabili.

Hvað varðar árið í ár liggur það fyrir, eftir sem áður, að þar verður halli en það er ekki vegna breytinga sem núverandi ríkisstjórn hefur gert. Og til að klára þessa umræðu um skattlagningu á ferðaþjónustuna veltir maður því fyrir sér hvort hv. þingmaður sé orðinn ósammála fjármálaráðherra síðustu ríkisstjórnar, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, sem lýsti því yfir fyrir kosningar að það hefði ekki verið skynsamlegt að ráðast í slíkar skattahækkanir. Það hefði ekki skilað ríkinu meiri tekjum þegar öllu væri á botninn hvolft.

Af því að hv. þingmaður leyfir sér að tala um reynsluleysi: Hvers lags staða væri á fjárlögum ársins 2013 eða einhverjum öðrum fjárlögum ef öll áform hv. þingmanns um að auka útgjöld ríkisins, m.a. um 42 milljarða á ári úr landi í erlendri mynt vegna samninga sem hann gerði, hefðu náð fram að ganga? (Forseti hringir.)(Gripið fram í.) Þá værum við ekki að tala um þær upphæðir sem hér eru til umræðu.