143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[15:57]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu þarfa málefni. Grunnrannsóknir og samkeppnissjóðir eru mikilvægir hlekkir í samfélaginu og nýsköpun er afar mikilvæg og forsenda hagvaxtar, ekki bara í nútíð heldur ekki síður ef horft er til framtíðar. Því er rétt að hlúa vel að þeim sjóðum sem hér eru til umræðu. Það þyrfti til dæmis að endurskoða áætlun um niðurskurð til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs, Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Innviðasjóðs. Við vitum að fjárfesting í nýsköpun skapar störf, eykur gjaldeyristekjur og eflir erlenda fjárfestingu. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Ef vel ætti að vera og ef við værum í hinum fullkomna heimi þyrftum við að setja milljarða til viðbótar í grunnrannsóknir. Ljóst er að við stöndum langt að baki því meðaltali sem er innan OECD og því sem stefnt er að þar. Hér þyrfti að verða fjór- til sjöföldun á framlögum á næstu tveimur til sjö árum í stað þess niðurskurðar sem við horfum til í dag. Það er staðreynd.

Fjárhagsstaða ríkissjóðs er hins vegar grafalvarleg og niðurskurður er nauðsynlegur á fjölmörgum sviðum. Við getum ekki lengur haldið áfram að safna skuldum og sent reikninginn til barna okkar og barnabarna. Öll umræða stjórnarandstöðunnar í þá veru er óábyrg og einungis til þess fallin að kaupa sér atkvæði á kostnað framtíðarkynslóða landsins.

Við þurfum að standa vörð um rannsóknir og nýsköpun. Bent hefur verið á að það geti tekið áratugi að byggja aftur upp það sem nú er verið að skera niður. Það er eflaust rétt að það mun taka tíma að vinna aftur upp það sem hugsanlega tapast. Vísindastarf er ekki eitthvað sem hægt er að stoppa með góðu móti og byrja svo aftur á frá sama punkti. Það er atriði sem við verðum að horfa til þegar litið er til niðurskurðar.

Það þarf hins vegar mun meira eftirlit með ýmsum sjóðum og stofnunum sem útdeila skattpeningum okkar í rannsóknir. Það þarf að tryggja að þessir peningar fari á rétta staði og skili okkur árangri til framtíðar. Í mörgum tilvikum virðist eftirlit vera lítið sem ekkert. Peningum er úthlutað (Forseti hringir.) og síðan er lítil eftirfylgni.

Við þurfum að fara varlega í þessum niðurskurði, (Forseti hringir.) við stöndum hins vegar frammi fyrir afar erfiðu verkefni þegar (Forseti hringir.) kemur að fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar er allt undir, líka þeir sjóðir sem hér eru til umræðu.