143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

efling skákiðkunar í skólum.

57. mál
[16:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum hv. þingmönnum brýningarnar. Ég held að við séum ágætlega sammála um þetta mál. Það er rétt að vera bjartsýnn hvað varðar framtíð skákarinnar á Íslandi, það er mjög mikil gróska í íslensku skáklífi. Gömul félög og ný taka þátt í Íslandsmótum í skák. Það er heilmikil skákstarfsemi í skólunum, bæði grunnskólum og framhaldsskólum. Félög eins og Hrókurinn hafa lagt mikið upp úr því að breiða út skáklistina, ekki bara innan lands heldur til dæmis líka í nágrannalandi okkar, á Grænlandi, að efla þar skáklistina einmitt á sömu forsendum og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi í upphafsræðu sinni, að skákin hefur bætandi áhrif þegar kemur að námsárangri, eykur einbeitingu o.s.frv. Um þetta held ég að við getum öll verið sammála og þess vegna hef ég sagt hér áður, og sagði í fyrri ræðu minni, að ég er mjög hlynntur þessu verkefni. Við erum samt í þeirri stöðu sem við höfum rætt svo oft hér hvað varðar fjármagnið en það er líka rétt að hér er ekki um að ræða neinar risastórar fjárhæðir og ég mun auðvitað horfa á þetta verkefni með þeim augum.

Það er sjálfsagt að gera allt sem við getum til að koma þessu verkefni sem fyrst fram. Hvort það gerist núna eða á næsta ári er kannski ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að ég skynja í þinginu heilmikinn vilja og samstöðu með slíku verkefni. Þá er hægt að láta reyna á það í umræðum um fjárlagafrumvarpið þegar við á og tækifæri gefst til.