143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Fyrst ber þess að geta að ekki var verið að sameina ríkisstofnanir þegar ríkisskattstjóri var settur í eitt embætti. Ég hef talað um sameiningu ríkisstofnana og ætla ég hér að taka eitt gott dæmi um það sem misfórst að mínu mati hjá ríkisstjórn sem starfaði síðasta kjörtímabil.

Um það vitnar Ríkisendurskoðun í mikilli skýrslu sem lögð var fram í september 2013. Til að hafa smáinngang að þessu erindi þá kom fram í Morgunblaðsviðtali við mig í gær að mér þætti skrýtið að allt síðasta kjörtímabil hefði verið nokkurs konar lagaákvæði sem fólst í því að starfsmönnum hinna sameinuðu stofnana yrði ekki sagt upp og að ekki yrði gripið til þeirra ráðstafana sem grípa þarf til þegar verið er að sameina stofnanir. Til dæmis var svofellt bráðabirgðaákvæði sett inn í lögin um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands í Þjóðskrá Íslands, með leyfi forseta:

„Starfsmenn Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, sem eru í starfi við gildistöku laga þessara, verða starfsmenn Þjóðskrár Íslands“ og ekki þarf að auglýsa störfin sem þeir eru í. Þetta er það sem ég var að tala um.

Til þess að lýsa þeirri falleinkunn sem ríkisstjórnin fékk við þessa sameiningu kemur fram í skýrslunni að frá 2009 til 2012, í sameiningarferlinu, jókst launakostnaður um 235 millj. kr. hjá sameinaðri stofnun.

Virðulegi forseti. Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar hefur verið að störfum, við þingmenn erum með fjárveitingavaldið. Þetta er ekki það sem við viljum sjá þegar verið er að tala um hagræðingu, þ.e. að gefið sé í.