143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær spurningar sem hann leggur hér fram. Þær eru eðlilegar, hafa mikið verið ræddar og eru ræddar, eins og um staðsetningu. Okkar færustu sérfræðingar, þar með talið læknar og þeir aðrir sem hafa verið kallaðir að, hafa komist að þeirri niðurstöðu að best sé að byggja hann við Hringbraut. Áður fyrr var meðal annars rætt um Fossvoginn en úthlutun á nokkrum blokkaríbúðum þar um slóðir hefur gert út um það. Menn hafa nefnt Vífilsstaði en við skulum hafa í huga, eins og ég sagði í flutningsræðu minni, að tekin var ákvörðun um að gíra þetta aðeins niður. Þess vegna á að nota þau hús sem fyrir eru sem hægt er að nota og byggja við spítalann við Hringbraut.

Hv. þingmaður spyr mig, miðað við þá leið sem ég legg hér til og við flutningsmenn, hvenær ég sjái fyrir mér að framkvæmdin geti hafist. Það vill svo vel til að vegna þeirrar undirbúningsvinnu sem hefur verið unnin stendur útboð, ef ég man rétt, fram í apríl/maí á næsta ári. Það er um nauðsynlega fyrstu áfanga. Ef ríkisstjórnin vildi fara þá leið og ef við sköpuðum þá þjóðarsátt sem ég nefni í tillögunni um að fara þá leið, þjóðarsátt allra flokka á Alþingi um að helga sig þessu stóra og mikla verkefni næstu fimm ár, væri að mínu mati hægt að byrja að vori, undirbúningsvinna hæfist af fullum krafti á því sem er og þannig mundi hver byggingin reka aðra. Að loknum fimm árum sem er talinn hæfilegur byggingartími hvað þetta varðar gætum við tekið nýjan Landspítala í notkun eftir þá þjóðarsátt sem við mundum mynda til að koma þessu brýna, stóra, dýra og mikilvæga verkefni í gang.