143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014, munnleg skýrsla samstarfsráðherra Norðurlanda.

[16:52]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka samstarfsráðherra fyrir að gefa okkur tækifæri til að hafa smáumræðu. Það er einstaklega gaman að taka þátt í norrænu samstarfi. Þarna eru samankomnar þjóðir sem eru í fremstu röð þegar allar þjóðir heims eru bornar saman og þetta eru þjóðir sem eru sífellt að reyna að bæta sig og gera betur þrátt fyrir þær forskot sem þær hafa.

Við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs erum nýkomin heim af stórþingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Ósló, en þar var meðal annars talað um stjórnsýsluhindranir og hvernig skuli hrinda þeim úr vegi. Þetta er verkefni sem menn vonuðust til að væri aðeins til skamms tíma en alltaf eru að koma upp ný vandamál. Við þurfum sterkan pólitískan vilja til að klára þetta verkefni ef Norðurlöndin vilja styrkja samkeppnisstöðu sína og skapa sér sess hvað varðar viðskipti, nám og rannsóknir.

Fyrir hönd velferðarnefndar fékk ég að kynna á þinginu verkefnið sjálfbær norræn velferð. Það er gerð krafa um sjálfbærni á því sviði og það kallar á endurmat á ríkjandi áherslum. Þessu verkefni var hleypt af stað í ágúst 2013 og snýst um að þróa nýjar lausnir í velferðarmálum, skoða og gefa innsýn í norrænt samstarf í tilraunum lyfja, meðferðarúrræða og sérhæfðum aðgerðum og rannsóknum. Markmiðið er meðal annars að skapa norrænan umræðuvettvang og deila þekkingu. Þessi vinna er ekki síður ætluð til að styrkja gæði og jafnræði í menntun og starfi er viðkemur velferð. Þetta verkefni sýnir vel hvað Norðurlöndin eru tilbúin að taka mikla ábyrgð á sjálfum sér, opin fyrir því að reyna að gera enn betur í að styrkja sig sem velferðarlönd. Eftir aðeins nokkurra mánaða vinnu í áætluninni liggja fyrir mörg verkefni sem vel hefur verið tekið í um öll Norðurlönd sem sýnir kannski nauðsyn þess að endurskoða kerfið til að standa betur að vígi, koma í veg fyrir stöðnun og betrumbæta í takt við þá þróun sem á sér stað innan velferðargeirans um allan heim.

Forsætisnefndin leggur mikla áherslu á verkefni sem auka virkni einstaklingsins í samfélaginu, bæði á vinnumarkaðnum og í hinu daglega lífi. Þau verkefni snúa meðal annars að greiningu á þeim þáttum er varða ungt fólk sem hættir námi, að auka endurmenntun og kunnáttu á vinnumarkaði og greina norræna velferðarmódelið. Einnig leggur nefndina áherslu á margvíslegar rannsóknir og að finna varanlegar lausnir og úrbætur til að halda fólki sem starfar við umönnunarstörf í vinnu.

Þingið í heild var mjög gott. Ég fékk einnig þann heiður að vera fundarstjóri á Norðurlandaráðsþingi æskunnar helgina fyrir og þar fékk maður allt annað sjónarhorn. Þarna voru eflaust margir pólitíkusar framtíðarinnar.

Mér þykir ánægjulegt hve græn stefnan er á formannsári okkar og hvernig samþætta á hana við hagkerfið. Til dæmis er tiltekið þróunarverkefni sem byggist á bættri nýtingu lífauðlinda og aukinni verðmætasköpun.

Á formennskuárinu er mikið lagt upp úr nýsköpun. Það er mikilvægt að nýta þann mikla styrk sem Norðurlöndin búa yfir á því sviði. Tækniframfarir og vaxandi samkeppni kalla á stöðuga endurskoðun á háskóla- og vísindastarfi sem eflir okkur norrænu þjóðirnar enn frekar í því að skara fram úr. Nýsköpun í menntun, starfi og leik býr einnig til vettvang handa mjög kláru ungu fólki til að finna hvar styrkleikar þess og áhugasvið liggja og gefur því tækifæri til að blómstra utan hins samfélagslega fyrir fram ákveðna kassa. Þessari framþróun ber að fagna. Unnið er að og verður haldið áfram að búa svo um hnúta að Norðurlöndin verði besti staður í heimi fyrir börn og unglinga og það endurspeglast í mörgum málaflokkum. Bara í velferðarnefnd liggja fyrir mörg mál er snerta heilbrigði barna, velferð og framtíð.

Að lokum vil ég óska Íslandi til hamingju með formennsku þessa árs og hlakka til að leggja mitt af mörkum til að sýna heiminum hvar á hestinum Norðurlöndin sitja.