143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sitjum saman á samráðsvettvangi um aukna hagsæld þar sem fram kemur að til þess að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram, sem eru mjög háleit, þurfi að verða gríðarlegur vöxtur innan alþjóðageirans. Alþjóðageirinn skilgreinir sig þannig að þar eru innan borðs fyrirtæki sem geta flutt sig af landi brott, eru hvorki háð auðlindum á landinu né þurfa að vera staðsett í námunda við kúnnana sína. Þau geta flutt sig af landi brott.

Það sem er að gerast er að þessi fyrirtæki eru að flytja sig af landi brott. Ef við ætlum að halda stöðu okkar innan alþjóðageirans og byggja hann upp verður að koma til fjárfesting hjá sprotafyrirtækjum sem koma með þau nýju tækifæri sem eru nauðsynleg til að byggja upp atvinnulífið á Íslandi.

Það sem ég mundi vilja heyra frá hæstv. fjármálaráðherra er um sýn hans á þá fjárfestingu, fjárfestingu þegar kemur að sprotum. Er hann hugmyndafræðilega á því? Er ekki gott að nýta kraft og sérþekkingu markaðarins sem er að fjárfesta og tengja það fjárfestingu ríkisins á einhvern veg þegar ríkið á að fara í fjárfestingar á þessum vettvangi? Það gæti verið þannig að ríkið greiddi einn á móti einum þannig að ef fjárfestar sæju tækifæri hjá sprotunum sem þeim sýndust góð legði ríkið fram jafna fjárfestingu á við fagfjárfestana.

Ég vil endilega heyra hvað hæstv. fjármálaráðherra hefur um það að segja.