143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

fjárfestingaráætlun.

[17:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Róbert Marshall nefndi í upphafi máls síns að stjórnarliðar endurtækju í sífellu að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hefði ekki verið fjármögnuð og því hefði núverandi hæstv. ríkisstjórn þurft að slá hana af, eins og fram hefur komið hér í þessari umræðu.

Þessi málflutningur stjórnarliða stenst hins vegar ekki skoðun. Það var pólitísk ákvörðun og forgangsröðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að slá verkefnið af. Á árinu 2014 var gert ráð fyrir að 5,7 milljarðar kr. af veiðigjaldinu færu til samgönguverkefna, í rannsóknir og nýsköpun og til sóknaráætlana landshluta. Eitt af fyrstu verkum hæstv. ríkisstjórnar var að lækka veiðigjaldið þannig að tekjur lækkuðu um 6,4 milljarða á árinu 2014. (Gripið fram í.) Lækkunin er 700 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir að færi í fjárfestingaráætlunina. Aðrar fjárfestingar fyrir arð af fjármálastofnunum voru áætlaðar 6,7 milljarðar á árinu 2014 en í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir rúmum 8 milljörðum í arð af fjármálastofnunum. Þar væri því líka rými ef viljinn væri fyrir hendi.

Ástæðan fyrir því að fyrri ríkisstjórn lagði fram fjárfestingaráætlunina er fyrst og fremst sú að opinberar fjárfestingar skipta máli til að bæta innviði samfélagsins, skapa störf og ýta undir hagvöxt. Þrátt fyrir orð hæstv. fjármálaráðherra um mikilvægi opinberra fjárfestinga og uppbyggingu innviða eru flest fjárfestingarverkefni sem undirbúin voru á vegum ríkisins á síðasta kjörtímabili slegin út af borðinu með fjárlagafrumvarpinu.

Fjárfestingaráætlunin var liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og var ætlað að styðja við efnahagsbata og styrkja undirstöður hagvaxtar og tekjugrunn ríkissjóðs til framtíðar. Ný ríkisstjórn hafnar þessari leið, vill frekar líta til fortíðar og leggur til gamaldags áherslur.