143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki apríl, það er nóvember og ég fagnaði því að hæstv. forsætisráðherra bauðst til þess að koma hingað til þings og gera grein fyrir stöðunni í skuldamálunum vegna þess að það þyrfti að eyða óvissu fyrir tugþúsundir heimila í landinu og fyrir íslenskt efnahagslíf.

Síðan kemur hæstv. forsætisráðherra á Alþingi Íslendinga og segir ekki neitt. Skýrsla hans er svo ómerkileg að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins nenntu ekki að sitja undir henni á ráðherrabekkjum heldur fóru úr salnum. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, yfirgaf húsið upp úr kl. hálftólf og er ekki viðstaddur umræðuna. Fjarvera formanns Sjálfstæðisflokksins við umræðuna er auðvitað hrópandi.

Um leið og ekki var mikið sagt í skýrslunni var þó eitt gefið í skyn. Hæstv. forsætisráðherra sagði að hafin væri gerð lagafrumvarps í forsætisráðuneytinu um niðurfærslu höfuðstóls skulda. Það þýðir að hæstv. forsætisráðherra hefur tekið ákvörðun um hvaða leið eigi að fara í niðurfærslu skulda, með hvaða hætti það verði best gert og hvert umfang þess er. Það þýðir að hann hefur fengið nægilegar upplýsingar frá sérfræðihópi sínum til að hefja skrif sjálfs lagafrumvarpsins. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að upplýsa um það á hvaða forsendum það frumvarp er skrifað.

Framsóknarflokkurinn þarf í aðalatriðum að svara tveimur spurningum. Hann lofaði þjóðinni afnámi verðtryggingar. Verður verðtrygging afnumin? Forsætisráðherra getur í lok umræðunnar svarað þeirri spurningu með einföldu jái eða neii.

Síðan lofaði hann þjóðinni því sem hv. þm. Willum Þór Þórsson rétt í þessu kallaði hér í ræðustólnum 20% leið, þ.e. að svigrúm úr samningum við erlenda kröfuhafa, 300 milljarðar yrðu notaðir til að lækka allar verðtryggðar skuldir í landinu um 20%. Forsætisráðherra þarf við lok umræðunnar að svara því, verður þetta efnt? Ef ekki, hve mikið hyggst hæstv. forsætisráðherra þá efna, ¾ þessa fyrirheits, helming þess eða ¼ þessa fyrirheits? Því að hann sagði í ræðu sinni áðan að hluta þess svigrúms sem skapist í samningum við erlenda kröfuhafa verði varið til þessa málefnis. Það er allt annað en hann sagði fyrir kosningar þegar hann sagði að svigrúmið skyldi nýtt. En það er þá lágmark að hæstv. forsætisráðherra upplýsi hve stór hluti það er.

Tugþúsundir heimila í landinu bíða eftir svörum við þessu. Úr því að forsætisráðherra er kominn að niðurstöðu um þetta og hefur hafið undirbúning lagafrumvarps þá á þjóðin kröfu til þess að hann upplýsi um meginatriðin sem það frumvarp snýst um. Ég vona sannarlega að það sé ekki eins og umfjöllun hans um stimpilgjöldin því að óheilindi hæstv. forsætisráðherra í umfjöllun hans um stimpilgjaldaloforðið eru sláandi.

Hann sagði að búið væri að leggja fram frumvarp um afnám stimpilgjalda. Ég hvet fjölmiðla til að kynna sér hvers konar efndir það voru. Þar eru stimpilgjöld afnumin af lánssamningum en sett í staðinn á kaupsamninga og afsöl. Ungt fólk sem er að kaupa sér íbúð í fyrsta sinn þarf að borga meiri stimpilgjöld eftir breytinguna en áður. (RR: Þetta er rangt.) Það þarf ekki að hafa mig sem vitni fyrir því, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Mönnum nægir að lesa grein Sigríðar Andersen, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, til að fá býsna glögga innsýn í það hversu ljótur leikur það er, þar sem verið er að plata fólk með því að verið sé að uppfylla loforðið um að afnema stimpilgjöld. Það er ekki verið að gera neitt annað en færa þau til.