143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

tollalög.

137. mál
[15:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þær vangaveltur sem komu fram og fyrirspurnina um þetta flókna mál. Við þekkjum það mætavel, nokkur okkar hér í salnum, sem sátum í atvinnuveganefnd á síðasta kjörtímabili og fjölluðum um málið að það er býsna flókið. Við erum mjög lítill markaður með öfluga innanlandsframleiðslu sem er auðvitað erfitt að stýra þannig hún fullnægi alltaf innanlandsþörfum og geti síðan flutt út hitt á sinn kostnað, eins og við þekkjum. Það geta komið upp tímabil, bæði til styttri og lengri tíma, þar sem skortir ákveðna vöruflokka eða jafnvel heilu skrokkana, eins og kemur fyrir. Það jákvæða hefur gerst í landinu að neysla hefur aukist, m.a. með vaxandi fjölda ferðamanna. Tækifæri íslensks landbúnaðar hafa kannski aldrei verið meiri til að auka framleiðslu sína. Ég vil nota tækifærið og hvetja bændur landsins til þess að bregðast vel við því kalli, bæði í mjólk og kjöti.

Sú reynsla sem er komin af þessu bendir til að það hafi í það minnsta verið til bóta frá því kerfi sem áður var. Þótt svona flóknar útfærslur séu auðvitað alltaf umdeildar og ekki allir 100% sáttir virðist þetta alla vega hafa leitt til þess að hægt hafi verið að stýra þessu með skynsamlegri hætti en áður þekktist. Ég vonast til að það séu verkferlar sem geti þróast og þannig bætt þessa flóknu stöðu. Það er vandi að reyna að viðhalda hér nægilegu magni á markaði en tryggja um leið að innlend framleiðsla njóti ákveðinnar verndar, vegna þess að við þekkjum að sú framleiðsla er afar lítil í samanburði við risastórar fabrikkur og fyrirtæki erlendis sem gætu hrúgað hér inn vörum, (Forseti hringir.) og eyðilagt markaðinn á einni viku eða mánuði.