143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

tollalög.

137. mál
[15:12]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í umræðu um þetta frumvarp landbúnaðarráðherra. Ég tek undir framsögu hans í því sem hann hnykkti á — og hv. þm. Kristján Möller fjallaði hér um — að í sjálfu sér væri ekki markmið laganna að beita slíkum úrræðum að verðlag yrði óhóflega hátt. Það er alls ekki markmið kerfisins sem við höfum í innflutningi á þessum landbúnaðarvörum, alls ekki. Sú vinna sem hv. þm. Kristján Möller fór yfir — hann fjallaði um að tíma hefði verið eytt í það í nefndinni að reyna að koma á samráðshópi til að taka á því. Það var eitt af því sem mikið var gagnrýnt við málið á fyrri stigum, eða málið þegar það var flutt, hvernig ætti að skilgreina skortinn.

Mér hefur lengi fundist — og kemur kannski ekki á óvart þar sem ég kem úr bændastétt — of mikið gert af því að hafa um þetta mál mikinn ágreining og mikil átök. Við þurfum ekkert á því að halda. Það eru svo miklu fleiri hagsmunir sem sameina bæði neytendur, bændur og verslun að við þurfum ekki að vera að slást um það hvenær sé skortur og hvenær sé ekki skortur.

Ég tel líka mikilvægt að hafa í huga að við byggjum landbúnaðarstefnu okkar upp á tveimur meginstoðum, annars vegar búvörusamningum sem fela í sér ákveðnar skyldur, sem Alþingi, sem samþykkir samningana, leggur á íslenska bændastétt, skyldar þá til að framleiða. Það eru framleiðsluskyldur í búvörusamningum sem við höfum byggt upp, bæði til að byggja upp atvinnuveg sem nýtir landsins gæði, snýr að því að undirbyggja ákveðið öryggi í framboði matvæla o.s.frv. Síðan höfum við hina stoðina sem er tollverndin og beiting hennar. Báðar þessar stoðir eru stórar og mikilvægar. Þó er nú tollverndarstoðin öllu mikilvægari í mínum huga.

Þess vegna hefur mig lengi langað til þess að við tækjum aðra og dýpri umræðu um hana svo að við næðum um það betri sátt að framkvæma hana. Margt hefur gerst í áranna rás sem hefur nagað þá styrku stoð sem tollverndin er. Nægir þar að nefna ákveðnar tegundir í mjólkurvöruframleiðslu eins og osta og slíka hluti þar sem tollvernd er í raun engin orðin.

Verslun með búvörur er ekki með sama hætti og verslun með sjávarfang, ekki jafnopin alls staðar um heiminn eins og stundum er af látið. Í raun er langminnsti hluti landbúnaðarframleiðslu heimsins á útflutningsmörkuðum. Rétt innan við 5% af heildarframleiðslu heimsins eru flutt á milli landa, þannig að ólíku er saman að jafna þegar menn bera saman sjávarútveg og landbúnað.

Ég vil nefna þetta í umræðum um þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra leggur fram. Umgjörðina um það hvenær við eigum að gefa afslátt af tollum, opna fyrir innflutning, þarf að vinna miklu dýpra og betur en oft hefur verið gert. Ákveðið skref var stigið við síðustu breytingu. Verið er að bæta úr ágalla við þá lagasetningu sem var í frumvarpinu og hafði meðal annars verið bent á á þeim tíma.

Ég hlakka því til að takast á við frekari vinnu við frumvarpið í nefndinni.