143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

síldarútvegsnefnd og sjóðir í þágu síldarútvegsins.

146. mál
[15:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir litlu frumvarpi á þskj. 164, sem er 146. mál. Um er að ræða frumvarp um breytingu á lögum nr. 43/1998, um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins, sem fjallar um ráðstöfun fjár úr sjóði samkvæmt 8. gr. laganna, svokölluðum síldarrannsóknasjóði.

Frumvarp þetta er samið að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á grundvelli tillagna frá Hafrannsóknastofnun í bréfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 18. júní 2013, og minnisblaði, dags. 23. september 2013.

Markmið frumvarpsins er að fjármagna rannsókn á síldardauða sem varð í Kolgrafafirði í árslok 2012 og í byrjun árs 2013, m.a. rannsókn á líklegum orsökum þessa dauða, athugun á fyrirbyggjandi aðgerðum og nauðsyn viðbragðsáætlunar. Síldardauðinn í Kolgrafafirði hefur valdið töluverðum kostnaði hjá Hafrannsóknastofnun, einkum vegna vöktunar þar. Auk þess hefur verið ákveðið að fara í sérstakar straummælingar í og við Kolgrafafjörð til að rannsaka enn frekar mögulegar skýringar og koma með tillögur sem gætu fyrirbyggt að slíkt endurtaki sig. Stofnunin hefur óskað eftir sérstökum aukafjárveitingum til að greiða fyrir þann kostnað á árinu 2013.

Beinn heildarkostnaður vegna síldardauða Kolgrafafjarðar er nú áætlaður 34 millj. kr., þ.e. kostnaður Hafrannsóknastofnunar. Gert er ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið greiði hluta þess kostnaðar, eða 3 millj. kr., en það sem upp á vantar, þ.e. 31 millj. kr., verði fjármagnað úr áðurnefndum síldarrannsóknasjóði sem starfar samkvæmt lögum nr. 43/1998. Í lagafyrirmælum um þann sjóð er einungis gert ráð fyrir að á hverju ári sé hægt að greiða úr sjóðnum sem nemur vöxtum, þ.e. að eigið fé hans haldist stöðugt. Sú heimild nemur nú 13 millj. kr. Til þess að mögulegt sé að greiða 31 millj. kr. kostnað þarf því lagabreytingu. Með frumvarpi þessu er lagt til að heimild fáist til hærri útgreiðslna í eitt ár, þ.e. á árinu 2013. Sundurliðaður heildarkostnaður kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.

Með vísan til framanritaðs er því lagt til að lögfest verði tímabundið ákvæði til bráðabirgða um að heimilt sé að greiða á árinu 2013 hærri fjárhæð úr síldarrannsóknasjóði en heimilt er að greiða samkvæmt 8. gr. laga nr. 43/1998, en eftir það verði að vera uppfyllt umrætt ákvæði um eigið fé sjóðsins.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.