143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Dettifossvegur.

99. mál
[16:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aftur tek ég undir með hv. þingmanni um mikilvægi þessa verkefnis en sé mig samt knúna til að slá varnagla vegna þess að formlega skal málið, eins og fyrrverandi samgönguráðherra þekkir jafn vel og ég, fara í gegnum samgönguráð sem gerir tillögu sem síðan er lögð fram á Alþingi. En þegar ákvörðun var tekin í júní sl. um að fresta útboðinu var það ekki vegna þess að breytt staða væri uppi í verkefninu eða breytt ákvörðun, heldur vegna þess að talið var að tíminn væri of knappur til að hefja framkvæmdir. Þá var því lýst yfir að til stæði að fara í útboðið þegar ljóst væri að framkvæmdir gætu hafist á vormánuðum þegar farsælla væri að hefja framkvæmdir.

Það hefur því aldrei verið gefið neitt annað í skyn en að sú frestun, sem sannarlega varð og það er alveg rétt, á framkvæmdinni hafi verið vegna þess að tíminn hafi verið lengri en menn áttu von á varðandi undirbúning hönnunar leyfisveitingar. Í þessari atrennu er ekki ástæða til annars en að ætla að verkið haldi áfram eins og til hefur staðið en það segi ég aftur og ítreka fyrirvarann um formlega framkomna tillögu frá samgönguráði sem verður síðan lögð fram hér á þingi.