143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Talandi um vegi á Þingvöllum er vegurinn norðan við Þingvallavatn á milli gjánna, yfir á Gjábakka, dæmi um veg sem liggur eins mikið í landinu og mögulegt er og er þar af leiðandi minna áberandi fyrir vikið. Vandinn er auðvitað sá að þegar menn tala um hin ósnortnu víðerni, sem því miður gerast nú ansi fágæt og Ísland býr yfir sumum þeirra, sennilega stærstu ósnortnu víðernum í Evrópu, a.m.k. í Vestur-Evrópu, að þá er skilgreiningin sú að þar sé sem allra minnst og helst ekkert sem er manngert og minnir með sýnilegum og áþreifanlegum hætti á manninn, að hann hafi skilið þar eftir sig sem minnst spor. Þá vísa ég aftur til þeirrar hugsunar sem ég einhvern tíma lærði að væri útgangspunkturinn í sambandi við skipulag miðhálendisins, að menn væru að reyna að hafa þar þá skipulagshugsun að viðhalda þessu svona eins og kostur væri. Þá þurfa menn að gera það upp við sig að þetta er angi af mjög stóru máli. Hvernig sjáum við miðhálendið og framtíð þess fyrir okkur, hvað viljum við þar og hvað viljum við ekki?

Jú, að sjálfsögðu eru allir sammála því að við viljum greiða fyrir því að fólk geti notið miðhálendisins en við verðum að skipuleggja það og hugsa það langt fram í tímann og svara spurningum fyrst eins og þessum: Ætlum við að breyta um stefnu og leyfa beinlínis uppbyggingu, hótel, umferðarmiðstöðvar eða sjoppur inni á sjálfu miðhálendinu? Eða ætlum við að reyna að halda okkur við það að þar verði byggt á einfaldari aðstöðu, skálum, tjöldum, og slík mannvirkjagerð verði niðri í hálendisbrúninni? Þetta eru allt saman (Forseti hringir.) spurningar sem eiga eftir að koma upp í þessu sambandi.