143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða það mál sem hæstv. forseti nefndi áðan. Ég verð að segja að það er margt skrýtið í kýrhausnum. Formaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar er í framhaldinu orðinn aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst vera mikill vandræðagangur hjá stjórnvöldum. Þau mál sem voru efst á baugi í kosningabaráttunni, skuldamál heimilanna og hagræðing í rekstri ríkisins, það kemur lítið út úr því. Varðandi skuldamál heimilanna er sagt að allt sé í vinnslu og varðandi tillögur hagræðingarhópsins er verið að skoða þetta og meta og það sett í hendur ráðuneytanna að vinna úr því. Síðan er bætt um betur og formaður hagræðingarhópsins fengið það hlutverk að vera aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, sem mér finnst mjög óeðlilegt. Mér finnst það vera eftirlitshlutverk okkar þingmanna allra, eftirlit með framkvæmdarvaldinu, og við verðum að bera virðingu fyrir þrískiptingu valdsins, löggjafarvaldinu, framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu. Þarna er verið að stíga skref í allt aðra átt en gert hefur verið.

Ég tel að við eigum öll, þingmenn hérna inni, að vera aðstoðarmenn hæstv. forsætisráðherra. Ég og eflaust allir aðrir erum alveg tilbúin til þess án þess að taka neitt sérstaklega fyrir það. Ættum við ekki að bjóðast til þess frekar en að leggja það á einn hv. þingmann að sinna því hlutverki? Er það ekki nóg sem hann þarf að bera, hv. þingmaður, þótt þessu sé ekki bætt á hann?

Mér finnst ekki, með virðingu þingsins í huga, að við eigum að taka það skref að gera þingmenn að aðstoðarmönnum ráðherra. Hvað með þá tillögu að ráðherra segi af sér þingmennsku (Forseti hringir.) í því samhengi?