143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að efna til þessarar umræðu og kalla eftir því að við ræðum nýja skýrslu Ríkisendurskoðunar og setjum hana í samhengi við fjárlög yfirstandandi árs. Skýrslan kom nýlega út og fjallar um afkomu ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins. Fram kemur það álit stofnunarinnar að afkoman hafi verið betri en áætlað var og hefur það gefið tilefni til þessarar umræðu.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er hins vegar ekki verið að reyna að setja fram útkomuáætlun fyrir ríkið í heild yfir allt árið. Skýrslan er samantekt á því hvernig útkoman var á fyrstu sex mánuðunum. Tilgangurinn er meðal annars að fara yfir hvernig til hefur tekist með framkvæmd fjárlaga á fyrri helmingi ársins með því að greina hvernig fjárlagaliðir standa gagnvart fjárheimildum. Á tekjuhlið er gerður samanburður við tekjuáætlun eins og hún hefur verið brotin niður á mánuði ársins. Á útgjaldahlið er ekki borið saman við eiginlega útkomuáætlun heldur fjárheimildir fjárlaga að viðbættum fluttum afgangsheimildum frá fyrri árum, sem eru um það bil 4 milljarðar fyrir fyrri árshelming. Ekki er því stuðst við útkomuáætlun fjármálaráðuneytisins í þessari skýrslu.

Þessi nálgun í skýrslunni hefur verulega annmarka ef bera á saman við það sem þingið hefur ákveðið fyrir árið í heild. Það er því varasamt að draga of miklar ályktanir af skýrslunni um útkomuna á árinu í heild.

Fyrst má nefna að samanburður innan ársins er gerður á greiðslugrunni og tekur því ekki til veigamikilla liða sem geta valdið frávikum á rekstrargrunni, svo sem afskrifta lífeyrisskuldbindinga og þess háttar. Fjárlög og ríkisreikningur eru hins vegar sett fram á rekstrargrunni.

Í annan stað þarf að hafa mikla fyrirvara á því hversu miklar vísbendingar greiðsluafkoman fyrstu sex mánuði ársins getur gefið fyrir endanlega afkomu á rekstrargrunni á öllu árinu. Sveiflur og tímatilfærslur geta verið í tekjum og útgjöld ríkissjóðs innan ársins og ýmsir veigamiklir þættir fara ekki í endanlega álagningu eða uppgjör fyrr en seint á árinu og jafnvel eftir að það er liðið, auk þess sem umtalsverð óvissa getur verið um dreifingu áætlunar um tekjur og gjöld niður á viðkomandi mánuði ársins.

Ef litið er á tekjur ríkissjóðs kemur fram í skýrslunni að frávik tekna frá áætlun fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins sé lítið sem ekkert. Aftur á móti eru áætlaðar frumtekjur á yfirstandandi ári, sem fram koma í fjárlagafrumvarpi 2014, um 23 milljörðum lægri en áætlað var við gerð fjárlaga 2013. Hér virðist við fyrstu sýn vera mikið misræmi á ferð en á þessu eru skýringar. Tekjum ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum er dreift yfir mánuði ársins og mynda þannig tekjuáætlun fyrir fyrstu sex mánuðina. Dreifing á innheimtu ríkistekna milli mánaða hefur síðan reynst vera önnur en gert var ráð fyrir í áætlun ríkissjóðs og myndar þetta frávik, en endanleg útkoma fyrir árið í heild verður þó ekki fjarri lagi.

Ég get nefnt hér sem dæmi að innheimtur á arðgreiðslum ríkissjóðs hafa reynst vera 4 milljörðum umfram áætlun á fyrri helmingi ársins. Það skýrist alfarið af því að í áætlun er gert ráð fyrir að allar arðgreiðslur séu greiddar í desember en síðan innheimtast þær á fyrri hlutanum. Þegar við tökum stöðuna eftir hálft ár erum við langt yfir áætlun en þarna verða menn að horfa á árið í heild.

Einnig er innheimt af veiðigjaldinu 1,3 milljarðar umfram áætlun en það skýrist einnig af því að dreifingin er önnur milli mánaða en gert var ráð fyrir í áætlun.

Það ber því að varast að túlka innheimtutölur fyrir fyrstu sex mánuðina sem áreiðanlega spá yfir tekjur ársins í heild.

Ef litið er á útgjöldin sem fram koma í skýrslunni þarf að hafa í huga að svonefnd áætlun í henni fyrir árið 2013 inniheldur fjárheimildir samkvæmt fjárlögum 2013 að viðbættum fjárheimildum fluttum frá fyrra ári. Þannig eru innifaldar í svokallaðri áætlun skýrslunnar um 4 milljarða nettó afgangsheimildir frá árinu 2012, sem þýðir í reynd að útkoman gagnvart áætluninni útgjaldamegin virðist betri en ella sem því nemur, sem sagt um 4 milljörðum.

Síðan má við þetta bæta að ef ganga ætti út frá samantekt Ríkisendurskoðunar um 10,5 milljarða frávik gagnvart tekjuáætlun og útgjaldaheimildum á fyrri árshelmingi og nota það sem vísbendingu fyrir árið í heild þá væri hægt að einfalda þetta og segja: Hallinn verður þá tvisvar sinnum 10,5 milljarðar, þ.e. 21 milljarður, umfram áætlun og svona gætum við haldið áfram.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þær upplýsingar sem við fáum frá opinberum stofnunum, frá Fjársýslunni, frá Ríkisendurskoðun og öðrum aðilum sem fjalla um fjármál ríkisins ekki hafa verið til þess fallnar undanfarin ár að bregða framkvæmd fjárlaga í það ljós sem við erum vön í umfjöllun hér á þinginu. Þess vegna hafa komið dálítið misvísandi upplýsingar, (Forseti hringir.) sérstaklega þegar við erum að skoða hluta árs eða hálfs árs (Forseti hringir.) upplýsingar í þessu efni.

Ég ætla síðan að bregðast við athugasemdum varðandi eignasölu, framkvæmd fjárlaga og aðhald með framkvæmdinni í seinna andsvari.