143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrstu sex mánuði ársins.

[11:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það skiptir okkur öll máli hvernig haldið er utan um rekstur ríkissjóðs, sameiginlegs sjóðs allra landsmanna. Við höfum að sjálfsögðu öll þær vonir að þar gangi áætlanir eftir eins og frekast er kostur, hvar í flokki sem við stöndum og hvorum megin víglínunnar, ef svo má segja, við erum frá einum tíma til annars, í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það er mikilvægt að við getum rætt þessi mál af yfirvegun og út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja hverju sinni.

Að sjálfsögðu er sú skýrsla sem Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér, um afkomuna fyrri hluta ársins, mikilvægt innlegg í þessa umræðu þó að ég geti tekið undir með hæstv. fjármálaráðherra að það er ekki allur sannleikurinn. Það er auðvitað margt sem á eftir að koma inn í þá mynd og fylla upp í hana þegar líður á árið og það að greiðsluflæði er annað en áætlanir gerðu ráð fyrir getur að sjálfsögðu skýrt hluta af þeim frávikum sem birtast en það getur í raun verið á báða bóga. Engu að síður er niðurstaðan úr þessari skýrslu alla vega uppörvandi að því leyti til að hún sýnir okkur að staða ríkissjóðs er betri á fyrri helmingi ársins en áætlað var, enda þótt hér megi telja fram alls konar skýringar á því og við eigum eftir að sjá hvernig árið endar.

En ég vil leggja áherslu á að á undanförnum árum hefur vinnulag við fjárlagagerð þrátt fyrir allt verið bætt, bæði af hálfu stjórnvalda og eins hér í þinginu í fjárlaganefnd og eftirfylgd með fjárlögum. Frávik frá fjárlögum og að ríkisreikningi hafa á undanförnum árum minnkað verulega þegar skoðað er til nokkuð langs tíma þó að sveiflur kunni að vera milli einstakra ára. Það er jákvæð þróun og það er þróun sem við eigum að halda áfram að vinna að, að efla eftirlit þingsins með framkvæmd fjárlaga og með framkvæmdarvaldinu að sjálfsögðu. Ég tel að við höfum þegar náð verulegum árangri í því efni en að sjálfsögðu má gera betur.